Urmull lítilla tunglagna mynda furðuverk í F-hring Satúrnusar

Sævar Helgi Bragason 23. apr. 2012 Fréttir

Vísindamenn við Cassini leiðangur NASA hafa komið auga á lítil, sérkennileg fyrirbæri sem stinga sér að hluta til í gegnum F-hring Satúrnusar og skilja eftir sig glitrandi slóðir.

  • Cassini, Satúrnus, F-hringurinn

Vísindamenn við Cassini leiðangur NASA hafa komið auga á lítil, sérkennileg fyrirbæri (um 1 km í þvermál) sem stinga sér að hluta til í gegnum F-hring Satúrnusar og skilja eftir sig glitrandi slóðir í leiðinni. Vísindamennirnir kalla slóðirnar „smástróka“ en segja má að þeir séu týndu hlekkirnir í þróunarsögu F-hringsins. Greint er frá þessari uppgötvun á fundi evrópska jarðvísindasambandsins í Vín í Austurríki í dag.

„Ég hugsa að F-hringurinn sé furðulegasti hringur Satúrnusar en þessar nýju niðurstöður Cassinis sýna að F-hringurinn er miklu virkari en áður var talið“ sagði Carl Murray, meðlimur í myndahópi Cassinis við Queen Mary háskóla í Lundúnum. „Niðurstöðurnar sýna að í F-hringnum eru ýmis fyrirbæri, allt frá litlum tunglögnum sem eru allt að 1 km í þvermál, upp stór tungl eins og Prómeþeif sem er margir kílómetrar í þvermál. Úr samspili þeirra og hringsins verður mjög tignarlegt sjónarspil.“

Sjá má ljósmyndir af strókunum og öðrum furðufyrirbærum í F-hringnum hér til hliðar. Á þessari kvikmynd (.mov) Cassini geimfarsins sést glitrandi slóð í F-hring Satúrnusar. Hana má rekja til lítils fyrirbæris sem ferðast hefur í gegnum hringinn. Á þessari kvikmynd (.mov) sést hvernig þyngdartog Prómeþeifs, eins af tunglum Satúrnusar, afmyndar F-hringinn.

Vísindamenn hafa lengi vitað af stórum fyrirbærum á borð við tunglið Prómeþeif (148 km að breidd) sem mynda rásir, öldur og kekki í F-hringnum. Hins vegar var ekki vitað hvað verður um kekkina — sem minna einna helst á snjóbolta — eftir að þeir myndast. Sumir sundrast annað hvort við árekstra við annað efni eða vegna flóðkrafta frá Satúrnusi. Nú hafa vísindamenn hins vegar greint merki þess að einhver hluti af smærri snjóboltunum kemst af og ferðast í gegnum F-hringinn.

Snjóboltarnir rekast á F-hringinn á aðeins um 2 metra hraða á sekúndu sem þykir mjög lítið. Árekstrarnir draga með sér glitrandi ísagnir úr F-hringnum og skilja eftir sig slóðir sem eru venjulega milli 40 og 180 km langar.

Á mynd sem tekin var 30. janúar 2009 sá rannsóknarteymi Murrays litla glitrandi slóð og fylgdist með henni í meira en átta klukkustundir. Myndirnar staðfestu að fyrirbærið átti rætur að rekja til F-hringsins. Hópurinn leitaði síðan í gagnasafni Cassinis til að átta sig á tíðni þessara fyrirbæra.

„F-hringurinn er 881.000 km að ummáli en smástrókarnir eru svo litlir að mikla þolinmæði og heppni þurfti til að finna þá“ sagði Nick Attree meðlimur í myndahópi Cassinis við Queen Mary háskóla. „Við grannskoðuðum yfir 20.000 ljósmyndir og vorum himinlifandi að finna 500 dæmi um þessa flakkara á því sjö ára tímabili sem Cassini hefur verið við Satúrnus.“

Í sumum tilvikum ferðast fyrirbærin í hópum og mynda þá smástróka sem eru afar einkennilegir útlits. Á öðrum myndum sést F-hringurinn í öllu sínu veldi og þeir hvirflar og svelgir sem gárast um hringinn af völdum þeirra ólíku fyrirbæra sem í og við hann eru.

„Rannsóknir Cassinis hafa ekki aðeins sýnt okkur sérstæða fegurð F-hringsins heldur hafa þær aukið verulega skilning okkar á því hvernig sólkerfi þróast úr rykskífum sem líkjast hringum Satúrnusar en eru augljóslega miklu stærri“ sagði Linda Spilker, verkefnisstjóri Cassini við Jet Propulsion Laboratory í Pasadena í Kaliforníu. „Við bíðum spennt eftir að sjá hvað fleira Cassini mun sýna okkur í hringum Satúrnusar.“

Tenglar

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefnum
Sími: 896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu NASA/JPL

Tengdar myndir

  • Cassini, Satúrnus, F-hringurinnHér sjást sex myndir Cassini geimfarsins af slóðum í F-hringnum sem rekja má til fyrirbæra sem eru aðeins um einn kílómetri í þvermál. Mynd: NASA/JPL-Caltech/SSI/QMUL
  • Cassini, Satúrnus, F-hringurinnHér sjást fjórar myndir Cassini geimfarsins af sérkennilegum slóðum í F-hringnum. Þær má rekja til fyrirbæra sem eru um það bil einn kílómetri í þvermál. Mynd: NASA/JPL-Caltech/SSI/QMUL
  • Cassini, Satúrnus, F-hringurinnÞessa mynd tók Cassini geimfarið er það fór á braut um Satúrnus árið 2004. Á myndinni sést stutt, glitrandi slóð ísagna sem hafa dregist út úr F-hring Satúrnusar. Mynd: NASA/JPL-Caltech/SSI/QMUL
  • Cassini, Satúrnus, F-hringurinnSamsettar myndir af F-hring Satúrnusar sem sýna þær breytingar sem verða á honum vegna þyngdartogs tungla og lítilla fyrirbæra í og við hringinn. Mynd: NASA/JPL-Caltech/SSI/QMUL