VISTA skoðar stóra kúluþyrpingu

Sævar Helgi Bragason 09. maí 2012 Fréttir

Á nýrri mynd VISTA sjónauka ESO af Messier 55 sjást tugir þúsunda stjarna þyrpast saman eins og býflugnasvermur.

  • VISTA, Messier 55, M55, kúluþyrping

Á nýrri mynd VISTA, innrauða kortlagningarsjónauka ESO, af Messier 55 sjást tugir þúsunda stjarna þyrpast saman eins og býflugnasvermur. Stjörnurnar eru ekki aðeins þétt saman á tiltölulega litlu svæði heldur eru þær meðal hinna elstu í alheiminum. Stjörnufræðingar rannsaka Messier 55 og aðrar gamlar kúluþyrpingar til að átta sig á þróun vetrarbrauta og því hvernig stjörnur eldast.

Kúluþyrpingar haldast kúlulaga fyrir tilstuðlan þyngdarkraftsins. Í Messier 55 eru allar stjörnurnar mjög nánar: Um það bil hundrað þúsund stjörnur eru samankomnar á svæði sem nemur 25 faldri fjarlægðinni milli sólar og Alfa Centauri, næstu fastastjörnu.

Um 160 kúluþyrpingar hafa fundist á sveimi um vetrarbrautina okkar, flestar í námunda við miðbunguna en VISTA fann þær tvær sem skemmst er síðan uppgötvuðust (eso1141). Hins vegar hafa stærstu vetrarbrautir himingeimsins mörg þúsund slíkar þyrpingar.

Rannsóknir á stjörnum í kúluþyrpingum sýna að þær mynduðust allar svo til samtímis — fyrir meira en 10 milljörðum ára — úr sama gasskýi. Myndunarskeið þeirra varð mjög stuttu eftir Miklahvell svo gasið var nærri allt vetni, einfaldasta, léttasta og algengasta frumefni alheimsins. Minna var af helíumi og enn minna af þyngri frumefnum á borð við súrefni og nitur.

Þetta mikla vetnisinnihald skilur stjörnur kúluþyrpinga frá stjörnum eins og sólinni okkar, sem urðu til seinna og innihalda þung frumefni sem mynduðust í síðari kynslóðum stjarna. Á sólinni kviknaði fyrir um 4,6 milljörðum ára svo hún er helmingi yngri en þær öldruðu stjörnur sem tilheyra kúluþyrpingum. Efnasamsetning skýsins sem sólin varð til úr endurspeglar það magn frumefna sem finnst í sólkerfinu okkar — í smástirnum, reikistjörnum og okkur sjálfum.

Stjörnuáhugafólk getur fundið Messier 55 í stjörnumerkinu Bogmanninum. Þyrpingin er nokkuð stór, nærri tveir-þriðju af breidd fulls tungls á himninum, svo auðvelt er að koma auga á hana jafnvel þó hún sé í um 17.300 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille skrásetti hópinn fyrstur manna í kringum árið 1752 en 26 árum síðar færði landi hans Charles Messier þyrpinguna í fræga skrá sína, það 55. í röðinni. Þyrpingin ber líka skráarheitið NGC 6809 í New General Catalogue skránni sem tekin var saman seint á nítjándu öld.

Nýja myndin var tekin af innrauðu ljósi með 4,1 metra Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy (VISTA, eso0949) í Paranal stjörnustöð ESO í norðurhluta Chile.

Á mynd VISTA sjást ekki aðeins stjörnurnar í Messier 55 heldur fjölmargar vetrarbrautir í órafjarlægð, langt fyrir aftan þyrpinguna. Sérstaklega áberandi er þyrilþoka á rönd, rétt fyrir ofan miðju hægra megin.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1220.

Tengdar myndir

  • VISTA, Messier 55, M55, kúluþyrpingÞessi glæsilega mynd af kúluþyrpingunni Messier 55 í stjörnumerkinu Bogmanninum var tekin í innrauðu ljósi með kortlagningarsjónaukanum VISTA í Paranal stjörnustöð ESO í Chile. Þessi stóra kúla gamalla stjarna er í um 17.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Mynd: ESO/J. Emerson/VISTA. Þakkir: Cambridge Astronomical Survey Unit
  • VISTA, Messier 55, M55, kúluþyrpingÞessi ljósmynd af svæðinu í kringum Messier 55 var búin til úr myndum sem teknar voru í gegnum bláa og rauða síu í Digitized Sky Survey 2 verkefninu. Kúluþyrpingin er á miðri mynd. Sjónsviðið er um það bil 2,7 gráður á breidd. Mynd: ESO og Digitized Sky Survey 2

Krakkavæn útgáfa