Hubble kannar dvergvetrarbraut, hýsil bjartrar geimþoku

Sævar Helgi Bragason 10. maí 2012 Fréttir

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur gert ítarlegar athuganir á dvergvetrarbrautinni NGC 2366 og bjartri geimþoku sem hún geymir.

  • NGC 2366, dvergvetrarbraut

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur gert ítarlegar athuganir á dvergvetrarbrautinni NGC 2366. Þó hana skorti glæsilega þyrilarma sem margar stærri vetrarbrautir geyma, þá er NGC 2366 heimili bjartrar geimþoku, hreiðurs nýrra stjarna sem er nógu nálægt okkur til þess að stjörnufræðingar geti greint á milli einstakra stjarna.

Stjörnumistrið sem teygir sig yfir myndina sem Hubblessjónauki NASA og ESA tók nýlega, er miðsvæði dvergþokunnar NGC 2366. Augljósasti hluti vetrarbrautarinnar er stór geimþoka sem lúrir á efri hluta myndarinnar til hægri. Lítið eitt framar í röðinni í NGC skránni er einmitt þetta fyrirbæri með skráarnúmerið NGC 2363.

Gulleiti hvirfillinn er ekki hluti stjörnuþokunnar. Þetta er enn fjarlægari þyrilþoka og liggur leið ljóss hennar í gegnum NGC 2366. Slíkt er mögulegt því vetrarbrautir eru ekki gegnheil fyrirbæri. Þótt við sjáum aðeins stjörnurnar sem skína skært eru vetrarbrautir að mestu tómarúmið milli stjarnanna. Háskerpumyndir Hubbles sýna þetta greinilega — stjörnurnar eru dálitlar ljóslindir í niðamyrkri himingeimsins.

Þessi laglegu fyrirbæri, NGC 2366 og NGC 2363, eru í um 10 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Gíraffanum. Dvergvetrarbrautin NGC 2366 er af svipaðri stærð og Magellansskýin, það litla og stóra, sem hnita um vetrarbrautina okkar. Úr því NGC 2366 hefur enga greinilega byggingu flokka stjörnufræðingar hana sem óreglulega vetrarbraut, rétt eins og Magellansskýin

Þótt NGC 2366 sé smávaxin í samanburði við aðrar vetrarbrautir, gegnir öðru máli um stjörnur hennar. Í henni leynist fjöldinn allur af bláum risastjörnum. Hinir bláu punktar dreifast um stjörnuþokuna og bera nýafstaðinni hrinu stjörnumyndunar skýlaust vitni. Ný kynslóð þessara heljarstjarna lýsa upp geimþokuna NGC 2363.

Á gasríkum stjörnumyndunarsvæðum er það útfjólublá geislun frá hinum ungu, heitu bláu stjörnum sem örva vetnisgasið á þann veg að það takur að glóa. NGC 2363 og aðrir minni flekkir sem birtast á Hubblemyndinni, eru nýjustu myndunarsvæði stjörnurisanna.

Með ljósmyndun um grænar og innrauðar síur, taka þessar stjörnuþokur á sig bláan litblæ, þótt hinn rétti litur sé rauður.

Myndin var gerð úr tveimur ljósmyndum af samliggjandi svæðum á himninum sem Hubblessjónaukinn tók með Advanced Camera for Surveys myndavélinni. Sjónsviðið spannar um 5,5 bogamínútur, sem samsvarar rétt um einum fimmta af fullu tungli. Þótt svæðið sé í stærri kantinum miðað við aðrar myndir Hubbles, er NGC 2366 of dauf til þess hún sjáist með berum augum.

Skýringar

Hubblessjónanukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni NASA og ESA.

Myndir: NASA, ESA

Tenglar

Tengiliður

Ottó Elíasson
Háskóla Íslands
Sími: 663-6867
Email: ottoel@stjornuskodun.is

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA/Hubble heic1207

Tengdar myndir

  • NGC 2366, dvergvetrarbrautHubble geimsjónauki NASA og ESA hefur gert ítarlega athuganir á dvergvetrarbrautinni NGC 2366. Þó hana skorti glæsilega þyrilarma sem margar stærri vetrarbrautir geyma, þá er NGC 2366 heimili bjartrar geimþoku, hreiðurs nýrra stjarna sem er nógu nálægt okkur til þess að stjörnufræðingar geti greint á milli einstakra stjarna. Mynd: NASA/ESA
  • NGC 2366, dvergvetrarbrautÞessi mynd sýnir svæðið á himninum í kringum dvergvetrarbrautina NGC 2366. Hún var búin til úr gögnum Digitized Sky Survey 2. Mynd: NASA/ESA/Digitized Sky Survey 2.