Dýpri mynd af Centaurus A

Sævar Helgi Bragason 16. maí 2012 Fréttir

Stjörnufræðingar hjá ESO hafa tekið dýpstu mynd sem til er af vetrarbrautinni furðulegu Centaurus A.

  • Centaurus A

Vetrarbrautin furðulega Centaurus A sést hér á nýrri mynd Stjörnustöðvar Evrópulanda á suðurhveli. Heildarlýsingartíminn nam 50 klukkustundum svo hér er að öllum líkindum um að ræða dýpstu mynd sem til er af þessu skrítna en glæsilega fyrirbæri. Myndin var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile.

Centaurus A, einnig þekkt sem NGC 5128 [1], er stór, afbrigðileg sporvöluþoka sem geymir risasvarthol í kjarna sínum. Hún er í um 12 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Mannfáknum (Centaurus) og hefur þá sérstöðu að vera bjartasta útvarpsvetrarbrautin á himninum. Stjörnufræðingar telja að rekja megi bjarta kjarnann, öflugu útvarpsgeislunina og strókana sem skaga út úr Centaurus A til svarthols í miðjunni sem er 100 milljón sinnum massameira en sólin okkar. Þegar efni frá þéttum miðsvæðum vetrarbrautarinnar fellur inn að svartholinu losnar gríðarleg orka.

Þessi mynd Wide Field Imager gerir okkur kleift að sjá daufu, ytri svæði vetrarbrautarinnar svo sporvölulögunin kemur vel fram. Bjarminn sem fyllir myndina í megindráttum stafar frá mörg hundruð milljörðum kaldra og gamalla stjarna. Breið, skellótt slæða úr dökku efni, sem hylur miðbik vetrarbrautarinnar, setur sterkan svip á Centaurus A og gerir hana ólíka flestum öðrum sporvöluþokum sem eru fremur sviplausar og samfelldar.

Í dökku slæðunni er feikilegt magn gass, ryks og ungra stjarna. Við efri og neðri brúnir slæðunnar sjást bjartar, ungar stjörnuþyrpingar og rauður bjarmi stjörnumyndunarskýja úr vetnisgasi, auk dökkra rykskýja sem varpa skuggamyndum sínum á stirndan bakgrunninn. Þessi fyrirbæri, sem og öflug útvarpsútgeislun, eru sterkar vísbendingar um að Centaurus A sé afleiðing samruna tveggja vetrarbrauta. Líklega er rykslæðan leifar þyrilþoku sem þyngdarkraftur stóru sporvölunnar tætir sundur.

Nýju myndirnar frá WFI voru teknar í gegnum rauða, græna og bláa síu og síur sem eru sérstaklega hannaðar til að einangra ljós frá glóandi vetni og súrefni. Tvær síðarnefndu síurnar hjálpa okkur að sjá stróka í kringum Centaurus A sem varla sáust á eldri myndum Wide Field Imager (eso0315a).

Tveir hópar rauðra þráða teygja sig frá vetrarbrautinni upp í efra, vinstra horn myndarinnar og eru nokkurn veginn í línu við stóra stróka sem eru áberandi á útvarpsmyndum. Báðir þræðirnir eru stjörnumyndunarský sem geyma heitar, ungar stjörnur [2]. Fyrir ofan rykslæðuna vinstra megin sjáum við innri þræði sem eru í kringum 30.000 ljósár frá kjarnanum. Lengra í burtu, í um 65.000 ljósára fjarlægð frá kjarnanum, við efra vinstra horn myndarinnar, eru ytri þræðirnir sjáanlegir. Í neðra hægra horninu eru svo merki um enn daufari gagnstæðan strók.

Stjörnufræðingar hafa rannsakað Centaurus A á ýmsum bylgjulengdum, allt frá útvarpsgeislum yfir í gammageisla. Útvarps- og röntgenmælingarnar hafa einkum reynst mikilvægar til að rannsaka víxlverkunina milli orkuríkra hviða frá risasvartholinu í miðjunni og nágrenni þess, sjá eso0903. Rannsóknir á Centaurus A með ALMA eru rétt að hefjast.

Athuganirnar sem þessi mynd var búin til úr, voru gerðar til að kanna hvort mögulegt væri að nota sjónauka á jörðinni til að finna og rannsaka breytistjörnur í vetrarbrautum eins og Centaurus A sem eru utan Grenndarhópsins [3]. Meira en 200 nýjar breytistjörnur fundust í Centaurus A.

Skýringar

[1] Breski stjörnufræðingurinn James Dunlop við Parramatta stjörnustöðina í Ástralíu skrásetti fyrstur manna þessa vetrarbraut þann 4. ágúst 1826. Hún er kölluð Centaurus A því hún var fyrsta stóra útvarpslindin sem fannst í stjörnumerkinu Mannfáknum á sjötta áratugnum.

[2] Uppruni beggja þráða er óljós og stjörnufræðinga greinir enn á um hvort þá megi rekja til jónunar af völdum geislunar frá kjarnanum eða höggbylgna frá gasklumpum.

[3] Frekari upplýsingar eru í grein eftir J.T.A. de Jong et al. 2008.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 15 37 35 91
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1221.

Tengdar myndir

  • Centaurus A, vetrarbraut, stjörnuþokaVetrarbrautin furðulega Centaurus A sést á þessari mynd sem tekin var með Wide Field Imager myndavélinni á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Heildarlýsingartíminn nam 50 klukkustundum svo hér er að öllum líkindum um að ræða dýpstu mynd sem til er af þessu skrítna en glæsilega fyrirbæri. Mynd: ESO

Krakkavæn útgáfa