Páll Jakobsson stjarneðlisfræðingur hlýtur Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs 2012

Sævar Helgi Bragason 07. jún. 2012 Fréttir

Páll Jakobsson, prófessor í stjarneðlisfræði við Háskóla Íslands (og greinarhöfundur á Stjörnufræðivefnum), hlýtur Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs árið 2012.

  • Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs 2012, Páll Jakobsson

Páll Jakobsson, prófessor í stjarneðlisfræði við Háskóla Íslands (og greinarhöfundur á Stjörnufræðivefnum), hlýtur Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs árið 2012. Verðlaunin eru veitt ungum vísindamanni sem þykir skara fram úr og vera líklegur til afreka í rannsóknum og nýsköpun í íslensku samfélagi. Verðlaunin voru afhent á Rannsóknarþingi Vísinda- og tækniráðs sem fram fór á Grand Hótel í Reykjavík í dag.

Páll Jakobsson er 35 ára prófessor í stjarneðlisfræði við Háskóla Íslands. Hann lauk BS-prófi frá skólanum árið 1999 og hélt að því loknu til framhaldsnáms við Kaupmannahafnarháskóla þar sem hann lauk doktorsprófi í stjarneðlisfræði árið 2005. Doktorsverkefnið snerist um gammablossa sem hefur verið eitt öflugasta rannsóknarsviðið í stjarneðlisfræði undanfarin ár.

„Ég er auðvitað hálf orðlaus yfir þessum verðlaunum“ sagði Páll við afhendinguna. „Ég á stjarneðlisfræðingunum Einari H. Guðmundssyni og Gunnlaugi Björnssyni í Háskóla Íslands mikið að þakka því þeir gerðu mér kleift að hefja framhaldsnám í Kaupmannahafnarháskóla og buðu mér einnig sumarvinni við HÍ þegar ég var ungur BS-nemi og grænn á bak við eyrun. Ég hefði sennilega unnið kauplaust.“

Að loknu námi dvaldi Páll um skeið við rannsóknir við Niels Bohr stofnunina í Kaupmannahöfn en árið 2006 var hann ráðinn nýdoktor við háskólann í Hertfordshire. Árið 2007 hlaut hann einn hinna eftirsóttu Marie Curie styrkja frá Evrópusambandinu en árið 2008 sneri hann heim til Íslands og tók þá við starfi dósents í stjarneðlisfræði við HÍ. Árið 2010 fékk hann svo prófessorsstöðu við skólann, einungis 33 ára gamall.

Páll er framúrskarandi vísindamaður og í umsögn dómnefndar kemur fram að eftir hann liggi 84 greinar í ritrýndum tímaritum og er hann er fyrsti höfundur 12 þeirra. Páll er meðhöfundur fjögurra greina í Nature og einnar í Science en ein Nature greinanna fjallaði um uppgötvun á fjarlægasta gammablossa sem sést hefur á jörðinni. Meira en 5000 ívitnanir í greinar Páls segja meira en mörg orð um gæði greinanna.

Eftir heimkomu árið 2008 hlaut Páll Öndvegisstyrk Rannsóknarsjóðs (Rannís) til þrggja ára sem gerði honum kleift að byggja upp sterkan rannsóknarhóp hér á landi á sviði gammablossa í samstarfi við rannsóknarhópa í Kaupmannahöfn, Hertfordshire, Leicester og Amsterdam. Þessi samstarfshópur notar reglulega stærstu sjónauka veraldar til rannsóknar, þar á meðal Very Large Telescope ESO og Hubble geimsjónaukann. Loks hefur Páll setið í ráðgjafahópi NASA um næstu skref í könnun geimsins.

Við afhendinguna minntist Páll líka á mikilvægi þess að horfa til himins: „Ég vil líka impra á fegurð himinhvelfingarinnar og minna á að stundum er það nauðsynlegt geðheilsunni að hætta dægurþrasi, slaka á og horfa til himins enda af nógu að taka. Til dæmis átti sér stað einn sjaldgæfasti stjarnfræðiviðburðurinn í gær og fyrradag þegar Venus gekk fyrir sólu. Ég vona að fólk hafi séð þetta stórkostlega sjónarspil með eigin augum því þetta gerist ekki aftur fyrr en eftir rúmlega 100 ár“.

„Þegar líða tekur á árið og kvöldin verða dimmari, hvet ég ykkur eindregið til að skreppa aðeins út fyrir borgina, losna við ljósmengunina og líta til stjarnanna í ró og næði. Ég get lofað ykkur því að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum“ sagði Páll að lokum.

Stjörnufræðivefurinn óskar Páli innilega til hamingju með verðlaunin.

Tenglar

Tengdar myndir

  • Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs, Páll JakobssonFrá vinstri til hægri: Gunnlaugur Björnsson, stjarneðlisfræðingur við HÍ; Hallgrímur Jónasson, forstöðumaður Rannís; Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra; Páll Jakobsson handhafi Hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs 2012 og Freysteinn Sigmundsson sem var í dómnefnd. Mynd: Rannís
  • Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs, Páll JakobssonPáll Jakobsson tekur við Hvatningarverðlaunum Vísinda- og tækniráðs árið 2012 úr hendi Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Mynd: Rannís
  • Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs, Páll JakobssonPáll Jakobsson, handhafi Hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs árið 2012, ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Mynd: Rannís
  • Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs, Páll JakobssonPáll Jakobsson, handhafi Hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs árið 2012, ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Hallgrími Jónassyni forstöðumanni Rannís. Mynd: Rannís
  • Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs, Páll JakobssonGammablossar, orkuríkustu sprengingar alheims, eru helsta rannsóknarefni Páls Jakobssonar, handhafa Hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs árið 2012,