Blekkjandi útlit vetrarbrautatvíeykis

Sævar Helgi Bragason 14. jún. 2012 Fréttir

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur tekið mynd af vetrarbrautatvíeyki sem virðist vera að rekast saman. En ekki er allt sem sýnist.

  • NGC 3314, vetrarbrautir

Þessa hnífskörpu mynd af vetrarbrautatvíeykinu NGC 3314 tók Hubble geimsjónauki NASA og ESA. Svo virðist sem vetrarbrautirnar séu að renna saman í eina en útlitið blekkir: Þær eru aðeins í sömu sjónlínu frá jörðu séð.

Vetrarbrautirnar NGC 3314A og B virðast í miðjum árekstri en í raun skilja tugir milljóna ljósára á milli þeirra. Þær sýnast einfaldlega nálægt hvor annarri því þær eru í sömu sjónlínu frá jörðu séð.

En hvernig vitum við það? Besta vísbendingum um gagnvirkar vetrarbrautir er útlitið. Þegar vetrarbrautir renna saman eru þyngdarkraftarnir á milli þeirra svo sterkir að vetrarbrautirnar afmyndast, löngu áður en þær rekast saman. Þyngdartogið afmyndar ekki aðeins vetrarbrautirnar heldur hrindir af stað nýjum stjörnumyndunarhrinum í báðum vetrarbrautum. Bjartar, bláar stjörnur og rauðglóandi geimþokur einkenna slíkar hrinur en þær eru hvergi sjáanlegar hér.

Í tilviki NGC 3314 er afmyndun vissulega sjáanleg í fremri vetrarbrautinni (kölluð NGC 3314A, NGC 3314B er í bakgrunni) en ástæðan er örugglega ekki víxlverkun milli þeirra tveggja. Afmyndun NGC 3314A sést best undir kjarnanum hægra megin þar sem straumar af heitum, blá-hvítum stjörnum liggja út frá þyrilörmunum en afmyndunin er ekki vegna víxlverkunar við vetrarbrautina í bakgrunni.

Rannsóknir á hreyfingu beggja vetrarbrauta benda til að báðar séu tiltölulega óbjagaðar og að þær hreyfist óháð hvor annarri. Það bendir líka til þess að þær séu ekki að renna saman. Líklega er afmyndun NGC 3314A af völdum annarrar nálægrar vetrarbrautar, hugsanlega NGC 3312 sem sést á víðmyndum norðan við tvíeykið.

Þessi tilviljanakennda uppröðun vetrarbrautanna er ekki aðeins forvitnileg, heldur hefur hún mikil áhrif á það hvernig vetrarbrautirnar birtast okkur.

Til dæmis virðast rykslæðurnar í NGC 3314B mun ljósari en í NGC 3314A. Ástæðan er ekki að vetrarbrautina skorti ryk, heldur sú að björt þokumóða af stjörnum í forgrunni lýsir rykið.

Þessi uppröðun vetrarbrautanna er líka heppileg fyrir þá stjörnufræðinga sem rannsaka örlinsuhrif, fyrirbæri sem myndast þegar stjörnur í einni vetrarbraut magna upp ljós fjarlægari stjörnu. Athuganirnar á NGC 3314, sem leiddu til þess að þessi mynd var tekin, voru gerðar til að rannsaka þetta fyrirbæri.

Myndin er samsett og spannar stórt svæði á himninum (margfalt stærra en sjónsvið Advanced Camera for Surveys á Hubble). Hver rammi var lýstur í meira en klukkutíma svo á myndinni sést ekki aðeins NGC 3314 heldur birtast líka fjölmargar fjarlægari vetrarbrautir í bakgrunni.

Litmyndin var sett saman úr ljósmyndum sem teknar voru í bláu og rauðu ljósi.

Skýringar

Hubble geimsjónaukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni ESA og NASA.

Myndir: NASA, ESA, Hubble Heritage (STScI/AURA)-ESA/Hubble Collaboration og W. Keel (University of Alabama)

Tenglar

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Háskóla Íslands
Sími: 896-1984
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA/Hubble heic1208

Tengdar myndir

  • NGC 3314, vetrarbrautirÞessa hnífskörpu mynd af vetrarbrautatvíeykinu NGC 3314 tók Hubble geimsjónauki NASA og ESA. Svo virðist sem vetrarbrautirnar séu að renna saman í eina en útlitið blekkir: Þær eru aðeins í sömu sjónlínu frá jörðu séð.
  • NGC 3314, vetrarbrautirVíðmynd af vetrarbrautatvíeykinu NGC 3314. Svo virðist sem vetrarbrautirnar séu að renna saman í eina en útlitið blekkir: Þær eru aðeins í sömu sjónlínu frá jörðu séð. Mynd: NASA, ESA, Digitized Sky Survey 2 (Þakkir: Davide de Martin)