Alþjóðlegur sumarskóli í stjörnulíffræði fer fram á Íslandi

Fræðsluerindi fyrir almenning 2. júlí kl. 20:30

Sævar Helgi Bragason 29. jún. 2012 Fréttir

Milli 2. til 15. júlí 2012 fer fram sumarskóli í stjörnulíffræði hér á landi. Í tilefni hans verður boðið upp á fræðsluerindi fyrir almenning mánudagskvöldið 2. júlí.

  • eldgos, Eyjafjallajökull

Milli 2. til 15. júlí 2012 fer fram alþjóðlegur sumarskóli í stjörnulíffræði hér á landi á vegum NordForsk, Hawaiiháskóla, NASA Astrobiology Institute og Háskóla Íslands. Skólinn ber heitið Vatn, ís og uppruni lífs í alheimi. Við hann kenna margir af fremstu vísindamönnum heims á þessu sviði, bæði íslenskir og erlendir. Á fimmta tug framhaldsnema og ungra vísindamanna frá Evrópu og Norður og Suður Ameríku taka þátt í skólanum. Mánudagskvöldið 2. júlí 2012 verður boðið upp á fræðsluerindi fyrir almenning af þessu tilefni á Grand Hóteli í Reykjavík. Erindið fjallar um halastjörnur og hefst klukkan 20:30.

Sumarskólinn er skipulagður af Norræna stjörnulíffræðinetinu (Nordic Network of Astrobiology) og samstarfshópi Karenar Meech, stjörnufræðings við Hawaiiháskóla [1]. Skólinn er starfræktur á tveggja ára fresti eða svo á Íslandi (seinast árið 2009) og þess á milli á Hawaii.

Í skólanum fræðast nemendur um myndun vatns í geimnum og hlutverk þess í myndun sólkerfa og lífi á jörðinni. Fjallað verður verður um hvernig vatn barst til jarðar með halastjörnum og loftsteinum og hvernig líf náði að myndast við þær framandi aðstæður sem ríktu á jörðinni í árdaga. Hita- og kuldakærar jaðarörverur og eldvirkni á Íslandi og víðar koma einnig við sögu. Nemendur læra um alla þessa þætti með aðstoð íslenskra og erlendra vísindamanna og vettvangsferðum um íslenska jökla, eldfjöll og háhitasvæði.

Í hópi kennara við skólann eru Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur, Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson jöklafræðingur; James Head, reikistjörnufræðingur við Brownháskóla í Bandaríkjunum (vann m.a. við Apollo leiðangrana á sínum tíma), Karen Meech, sérfræðingur í halastjörnum við Hawaiiháskóla og David Des Marais, jarðefnafræðingur hjá NASA.

Sumarskólinn skiptist í þrjá hluta. Fyrsti og þriðji hlutinn fara fram í Reykjavík en annar hlutinn á Hvolsvelli. Þaðan verður haldið í nokkra vettvangsleiðangra og skoðunarferðir um Suðurland, meðal annars að Magna og Móða á Fimmvörðuhálsi, inn í Landmannalaugar og upp á Sólheimajökul, allt undir dyggri leiðsögn vísindamanna. Sýnum verður safnað og nemendur fræddir um landið og himingeiminn.

Ísland þykir einkar hentugur staður fyrir stjörnulíffræðirannsóknir. Landið er ungt og aðgengi er gott að nýrunnum hraunum og jöklum, sem eru hliðstæður við þá staði sem NASA og ESA hyggjast rannsaka í geimferðum sínum næstu ár og áratugi.

Mánudagskvöldið 2. júlí 2012 verður boðið upp á fræðslukvöld fyrir almenning í tilefni sumarskólans. Þá flytur Karen Meech fyrirlestur um nýjar niðurstöður rannsókna tveggja gervitungla á halastjörnum og hvað þær hafa að segja um uppruna vatns á jörðinni. Erindið fer fram kl. 20:30 í salnum Gullteigi á Grand Hóteli í Reykjavík. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir. Erindið verður flutt á ensku.

Skýringar

[1] Sjá lista yfir stofnanir sem eiga aðild að netinu http://www.nordicastrobiology.net/Institutions.shtml

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]