Hubble finnur nýtt tungl við Plútó

Sævar Helgi Bragason 11. júl. 2012 Fréttir

Stjörnufræðingar hafa fundið fimmta tunglið á braut um dvergreikistjörnuna Plútó.

  • Plútó, dvergreikistjarna, tungl, P5

Stjörnufræðingar hafa fundið nýtt tungl á braut um dvergreikistjörnuna Plútó. Tunglið er hið fimmta sem finnst við Plútó en uppgötvunin var gerð með Hubble geimsjónauka NASA og ESA.

Tunglið nýfundna birtist okkur sem daufur ljósdepill á myndum Hubbles. Það er talið óreglulegt að lögun, milli 10 til 25 km að þvermáli og í um 95.000 km fjarlægð frá Plútó en í sama brautarferli og hin tunglin.

Stjörnufræðingar hafa lengi velt fyrir sér hvers vegna þetta litla kerfi varð til en nýja tunglið hjálpar þeim að komast til botns í því. Helst hallast stjörnufræðingar að því að árekstur milli Plútós og annars stórs fyrirbæris úr Kuipersbeltinu, fyrir milljörðum ára, hafi myndað tunglakerfið.

Karon, stærsta tungl Plútós, fannst árið 1978. Árið 2006 fundustu tvö önnur tungl til viðbótar við dvergreikistjörnuna í gögnum Hubbles og voru þau nefnd Nix og Hýdra. Árið 2011 fannst fjórða tunglið á braut um Plútó og kallast það P4 þar til formlegt nafn finnst.

Tunglið hefur til bráðabirgða verið nefnt S/2012 (134340) 1 eða P5. Það fannst á ljósmyndum sem teknar voru með Wide Field Camera 3 myndavél Hubbles í lok júní og snemma í júlí 2012.

Þessa stundina þýtur New Horizons geimfarið til Plútós. Árið 2015 mun það fljúga framhjá þessum litlu en dularfullu íshnöttum og taka fyrstu nærmyndirnar af þeim. Kerfið er enda svo lítið og fjarlægt að jafnvel Hubblessjónaukinn greinir vart stærstu smáatriðin á yfirborði dvergreikistjörnunnar.

Eftir heimsókn New Horzons hyggjast stjörnufræðingar svo fylgja rannsóknunum eftir með hinum fyrirhugaða James Webb geimsjónauka sem skotið verður á loft í lok þessa áratugar. Með honum geta stjörnufræðingar rannsakað efnasamsetningu yfirborðs Plútós, tunglanna og fjölmargra annarra fjarlægra hnatta í Kuipersbeltinu.

Skýringar

Hubble geimsjónaukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni NASA og ESA.

Í Plútóteyminu eru M. Showalter (SETI stofnuninni í Mountain View í Bandaríkjunum), H.A. Weaver (Tilraunastofunni í nytjaeðlisfræði við Johns Hopkins háskólann í Baltimore í Bandaríkjunum) og S.A. Stern, A.J. Steffi og M.W. Buie (Southwest rannsóknarstofnunina í San Antonio í Bandaríkjunum).

Tenglar

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Háskóla Íslands
Sími: 896-1984
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA/Hubble heic1212

Tengdar myndir

  • Plútó, dvergreikistjarna, P5Mynd Hubblessjónaukans sem sýnir fimm tungl á braut um dvergreikistjörnuna Plútó. Nýja tunglið, P5, er merkt með grænum hring. Það er talið óreglulegt að lögun, um 10 til 25 km í þvermál og í um 95.000 km fjarlægð frá Plútó. Mynd: NASA, ESA, og M. Showalter (SETI Institute)