Nýir vefir um sólmyrkvann 12. ágúst 2026 opnaðir

Sævar Helgi Bragason 23. jún. 2024 Fréttir

solmyrkvi2026.is og eclipse2026.is eru upplýsingagáttir á íslensku og ensku

  • Skjáskot af solmyrkvi2026.is

Miðvikudaginn 12. ágúst árið 2026 verður almyrkvi á sólu sjáanlegur frá Íslandi í fyrsta sinn síðan 1954. Eftir myrkvann 2026 líða 170 ár þar til alskuggi tunglsins nemur land á Íslandi aftur. Af því tilefni hafa tvær nýjar upplýsingagáttir verið opnaðar á íslensku og ensku, solmyrkvi2026.is og eclipse2026.is

Almyrkvar á sólu laða ekki aðeins að sér mikinn fjölda ferðamanna, heldur vekja þeir mikla athygli heimafólks. Búast má við því að mörg hundruð þúsund augu horfi samtímis til himins þann 12. ágúst 2026 .

Almyrkvaslóðin liggur yfir vestasta og þéttbýlasta svæði landsins : Yfir Vestfirði, Snæfellsnes, Höfuðborgarsvæðið og Reykjanesskaga. Á vefjunum er gagnvirkt kort sem nota má til að sjá hvernig myrkvinn sést frá heimili þínu. Þá eru upplýsingar um hvernig hægt er að fylgjast með sólmyrkvanum á öruggan hátt og svör við algengum spurningum.

Heilmargt mun bætast við á næstu mánuðunum. Þar á meðal fréttasíða og upplýsingar um ljósmyndun sólmyrkva. Ritstjóri og eigandi vefjanna er Sævar Helgi Bragason.

Fylgstu með!