Risasvarthol tortímdi risastjörnu

Sævar Helgi Bragason 23. ágú. 2023 Fréttir

Mælingar tveggja röntgengeimsjónauka benda til þess að risasvarthol í 290 milljón ljósára fjarlægð hafi tætt í sundur risastjörnu

  • Teikning af risasvartholi sundra risastjörnu

Stjörnufræðingar sem notuðu gögn frá Chandra röntgengeimsjónauka NASA og XMM-Newton geimsjónauka ESA hafa fundið merki þess að stjarna, sem tættist í sundur þegar hún hætti sér of nærri riasasvarthol, hafi verið risastjarna. Við sundrunina þeyttust innviðir stjörnunnar út í geiminn.

Ups_FB_cover

Sjónaukarnir mældu nittur og kolefni í námunda við risasvarthol sem vitað er til að hafi rifið stjörnu í tætlur. Stjörnufræðingarnir telja að þessi frumefni hafi orðið til í innviðum stjörnunnar áður en svartholið tortímti stjörnunni og fleygði innyflum hennar út í geiminn. Frumefnin sem stjarnan skildi eftir sig eru vísbendingar um hvers eðlis stjarnan var. 

Stjörnufræðingar hafa fundið mýmörg dæmi um „flóðkraftasundrun“ á undanförnum árum. Það eru atburðir þar sem þyngdakraftur risasvarthols tortímir stjörnu. Við sundrunina verður til ljósblossi sem birtist í sýnilegu ljósi, útfjólubláu og röntgengeislun þegar leifar stjörnunnar hitna. 

Atburðurinn sem hér um ræðir kallast ASASSN-14li og varð hans vart í nóvember 2014. Atburðurinn varð í 290 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni og gerði nálægðin kleift að mæla hann nákvæmlega. 

Með hjálp röntgensjónaukanna komust stjörnufræðingarnir að því að stjarnan dauðadæmda vó á við þrjár sólir. Hún er því með allra efnismestu stjörnum sem stjörnufræðingar hafa orðið vitni að tætast í sundur af völdum svarthols til þessa.

Greint var frá niðurstöðunum í The Astrophysical Journal Letters.

Frétt frá NASA