Rykug fæðing stjarna á 33 ára afmælismynd Hubble geimsjónaukans

Sævar Helgi Bragason 22. apr. 2023 Fréttir

Hubble var skotið á loft hinn 25. apríl árið 1990

  • Heic2304a

Þann 25. apríl eru liðin 33 ár frá því að Hubble geimsjónaukinn var sendur á braut um Jörðu. Af því tilefni er þessi falelga mynd birt af stjörnumyndunarsvæðinu NGC 1333.

Þótt Webb geimsjónaukinn fái talsvert meiri ást þessa dagana en Hubble, heldur sá síðarnefndi áfram að rannsaka og taka stórtfenglegar myndir af alheiminum.

Hér sést geimþokan NGC 1333 sem er í um 960 ljósára fjarlægð frá Jörðu í stjörnumerkinu Perseifi. Þetta er sameindaský þar sem litadýrðina má rekja til glóandi gastegunda og ryks sem nýfæddar stjörnur feykja um.

Mestur er hasarinn innan í geimþokunni. Dökku skýin eru úr mjög fínu ryki sem líkist einna helst sóti. Þar er fjöldinn allur af nýjum stjörnum að fæðast. Sumar eru meira að segja búnar að tilkynna um eigin fæðingu.

Neðst á myndinni sjást rauðgulir þræðir úr glóandi vetni. Þá má rekja til örþunnra stróka úr heitu gasi sem segulsvið nýmyndaðra stjarna skjóta burt.

Efst er björt bláleit stjarna. Rykið í kringum hana dreifir bláa ljósinu best, svipað og hvers vegna himinninn er blár á Jörðinni.

Á miðri myndinni er björt, ofurheit stjarna sem minnir einna helst á sólina okkar að skína í gegnum skýjaþykkni. Bjarminn er rauðleitur vegna ryksins sem fyrir er.

Sólin okkar fæddist ásamt fjölmörgum öðrum systurstjörnum sínum inni í samskonar gas- og rykskýi fyrir 4600 milljónum ára.

Heic2304a

Mynd: NASA, ESA, STScI