Deildarmyrkvi á tungli laugardagskvöldið 28. október 2023

Sævar Helgi Bragason 24. okt. 2023 Fréttir

Aðeins 6% af tunglskífunni myrkvast

  • Deildarmyrkvi á tungli 28. október 2023. Mynd: Gísli Már Árnason

Ef vel viðrar getur þú séð lítinn deildarmyrkva á tungli laugardagskvöldið 28. október 2023. Myrkvinn er lítill en þegar mest lætur hylur skuggi Jarðar aðeins 6% af tunglskífunni. Tunglið lítur þá út eins og tekinn hafi verið örlítill biti úr syðsta hluta þess. Skammt frá skín reikistjarnan Júpíter skært. Um helgina er líka prýðisgott norðurljósaútlit.

394186871_941826654217823_8297505803018885865_n

Deildarmyrkvinn hefst kl. 19:35. Þá sést hvernig syðsti hluti tunglsins byrjar að skyggjast. Myrkvinn nær hámarki fjörutíu mínútum síðar eða klukkan 20:14 þegar 6% af tunglskífunni er myrkvuð. Deildarmyrkvinn er svo yfirstaðinn klukkan 20:53. Þá skín fullt tunglið skært á himni.

Tunglmyrkvann ber upp fyrsta vetrardag. Seinast varð tunglmyrkvi fyrsta vetrardag þann 27. október árið 1901. Það var deildarmyrkvi líka, ekki ósvipaður þeim sem við sjáum í kvöld. Sá mykrvi sást reyndar ekki frá Íslandi. Þann 28. október 2004 varð almyrkvi á tungli. Það var reyndar ekki fyrsti vetrardagur þá því 2004 var ekki rímspillisár.

Tunglid-deildarmyrkvi-28okt2023-shb

Ekki þarf neinn hlífðarbúnað eða hjálpartæki til að sjá myrkvann. Þótt það eina sem þurfi að gera sé að horfa til himins er gaman að nota sjónauka til að fylgjast með skuggan færast yfir. Skammt frá skín Júpíter líka skært og með sjónauka má sjá Galíleótunglin á sveimi um hann.

28okt-jupiter-tunglid

Myrkvinn sést frá allri næturhlið Jarðar, þ.e. frá Asíu, Afríku og Evrópu. Sólþyrstir Íslendingar á Kanarí og víðar um heim geta því notið hans líka. Tímasetningarnar hér undir eiga við um íslenskan tíma eða heimstíma, svo mundu bara að breyta honum í takt við tímabeltið sem þú ert á.

Atburður Tímasetning Hvað sést?
Hálfskuggamyrkvi hefst 18:02 Tunglið byrjar að dofna örlítið, sést þó illa eða ekki
Deildarmyrkvi hefst 19:35 Skuggi Jarðar byrjar að færast yfir syðsta hluta tunglskífunnar
Deildarmyrkvi í hámarki 20:14 6% af syðsta hluta tunglskífunnar í skugga Jarðar
Deildarmyrkva lýkur 20:53 Síðustu merki jarðskuggans hverfa
Hálfskuggamyrkva lýkur 22:26 Tunglið orðið albjart aftur