Sjáðu Venus og Júpíter á kvöldhimninum í vestri

Sævar Helgi Bragason 20. feb. 2023 Fréttir

Að kvöldi 22. febrúar 2023 verður vaxandi mánasigð milli reikistjarnanna tveggja sem verða síðan mjög þétt á himni 1. mars.

  • Tunglið milli Venusar og Júpíters

Stjörnuáhugafólk ætti að gjóa augunum í vesturátt um kvöldmatarleitið milli 21. og 23. febrúar. Þá verður sjáanleg sérstaklega falleg samstaða tunglsins og tveggja skærustu reikistjarna himins, Venusar og Júpíters. Reikistjörnurnar verða síðan mjög þétt saman á himni 1. mars.

Tunglið var nýtt mánudaginn 20. febrúar. Það verður því vaxandi sigð næstu vikuna og vex og hækkar á lofti með hverju kvöldinu sem líður.

Þann 22. febrúar verður sérstaklega falleg samstaða tunglsins, Júpíters og Venusar. Vonandi sést í heiðan himinn þá.

Vafalaust fer Venus ekki framhjá neinum, ekki frekar en Júpíter sem er ögn daufari en lækkar á lofti og hverfur sjónum okkar seinni hluta marsmánaðar.

Þann 1. mars verður parið mjög þétt saman á himni, svo þétt að hægt verður að sjá báðar saman í sjónsviði handsjónauka og víðra stjörnusjónauka með lítilli stækkun.

Venus og Júpíter á himni 1. mars

Venus verður kvöldstjarna fram á mitt sumar, eða þangað til hún hverfur í sumarbirtuna. og fer vafalaust ekki framhjá neinum. Í apríl verður fallegt að kíkja með handsjónauka á Venus skammt frá Sjöstirninu í Nautinu.

Venus og Sjöstirnið

Tunglið er einn mánuð að ferðast um Jörðina. Þess vegna verður endurtekning á himnesku stefnumóti tunglsins og Venusar í hverjum mánuði fram á sumar. Dagsetningarnar sem gott er að hafa í huga þá eru 22. febrúar, 24. mars, 23. apríl og 23. maí.

Horfið til himins!