Sjáðu Venus og tunglið saman á morgunhimninum 9. nóvember

Sævar Helgi Bragason 07. nóv. 2023 Fréttir

Fimmtudagsmorguninn 9. nóvember eiga Venus og tunglið, tvö skærustu fyrirbæri næturhiminsins, náið og glæsilegt stefnumót

  • Tunglid-venus-9nov23-a

Að morgni fimmtudagsins 9. nóvember 2023 verður sérstaklega glæsileg samstaða Venusar og tunglsins sjáanleg með berum augum í suðaustri. Í gegnum handsjónauka eða litla stjörnusjónauka er útsýnið sérstaklega glæsilegt. 

Hamfarir - Vísindalæsi

Seinna sama morgun, þegar orðið er bjart að degi, má sjá Venus hverfa á bakvið tunglið. Líttu eftir því um klukkan 09:10 þegar tunglið byrjar að ganga fyrir Venus. Venus birtist svo aftur sjónum okkar rétt fyrir klukkan 10:00. Gott er að nota handsjónauka eða stjörnusjónauka til að fylgjast með því.

Tunglid-venus-09nov23

Tunglið og Venus séð með litlum handsjónauka fimmtudagsmorguninn 9. nóvember 2023.

Venus og tunglið mætast á himni í hverjum mánuði, ef bæði fyrirbæri eru á lofti. Þetta himneska stefnumót endurtekur sig því að morgni 9. desember næstkomandi. Þá verður bilið á milli þeirra reyndar mun meira. 

Í byrjun janúar á næsta ári er Venus komin það lágt á loft að samstöðurnar sjást ekki lengur frá Íslandi.

Samstaðan á sér stað í Meyjunni. Þann 11. nóvember verður tunglið skammt frá Spíku, skærustu stjörnu Meyjarinnar. Tunglið verður þá örmjó sigð, aðeins 4% upplýst.

Tunglid-spika-11nov23

Tunglið og Spíka í Meyjunni að morgni 11. nóvember 2023

Taktu eftir því hve vel nóttin á tunglinu er upplýst þessa dagana. Þetta kallast jarðskin og er ljós sem speglast af Jörðinni og lýsir upp tunglið, rétt eins og fullt tungl lýsir upp nóttina á Jörðinni. Ef þú stæðir á tunglinu sæirðu að Jörðin er að verða full upplýst. 

Tunglið er nýtt að morgni 13. nóvember og birtist því á kvöldhimninum eftir það. Mánudaginn 20. nóvember á tunglið stefnumót við aðra reikistjörnu, Satúrnus, á kvöldhimninum. 

Föstudaginn 24. nóvember hittir tunglið fyrir Júpíter sem skín skærast á kvöldhimninum. Þau færast nær hvort öðru þegar líður á nóttina svo að morgni laugardagsins 25. nóvember verður bilið minnst á milli þeirra. 

Miðvikudagsmorguninn 29. nóvember er röðin svo aftur komin að Venusi. Þá mætir hún Spíku í Meyjunni í mjög fallegri samstöðu.