Sjö reikistjörnur í einstöku sólkerfi TRAPPIST-1

Sævar Helgi Bragason 22. feb. 2017 Fréttir

Stjörnufræðingar finna sjö reikistjörnur á stærð við Jörðina, þar af þrjár sem gætu haft fljótandi vatn á yfirborði sínu, í kringum stjörnuna TRAPPIST-1

  • Teikning af TRAPPIST-1 sólkerfinu

Hópur stjörnufræðinga hefur fundið einstakt sólkerfi sjö reikistjarna á stærð við Jörðina, þar af þrjár sem gætu haft fljótandi vatn á yfirborði sínu, í kringum stjörnuna TRAPPIST-1. Greint er frá uppgötvuninni á þessu í nýjasta hefit tímaritsins Nature og sagt er frá á vefsíðu ESO .

TRAPPIST-1 er rauð dvergstjarna, aðeins 8% af massa sólar eða örlítið stærri en Júpíter, í 40 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Vatnsberanum. Stjarnan er aðeins tæplega 2600°C heit, helmingi kaldari en sólin okkar. 

Samanburður á stærð sólar og TRAPPIST-1Reikistjörnurnar nefnast TRAPPIST-1b, c, d, e, f, g og h, í röð frá móðurstjörnunni. Þær eru allar álíka stórar og Jörðin og Venus, hugsanlega örlítið minni.

Brautir reikistjarnanna eru ekki mikið breiðari en brautir Galíleótungla Júpíters og mun minni en braut Merkúríusar í sólkerfinu. 

TRAPPIST-1 er hins vegar lítil og köld stjarna sem þýðir að orkan sem berst til reikistjarnanna er álíka mikil og innri reikistjörnurnar í sólkerfinu okkar fá frá sólinni. TRAPPIST-1c, d og f fá álíka mikið magn sólarljóss og Venus, Jörðin og Mars hver fyrir sig.

Allar reikistjörnurnar sjö sem fundust í kerfinu gætu hugsanlega haft fljótandi vatn á yfirborðinu, þótt fjarlægðir þeirra frá móðurstjörnunni geri sumar líklegri en aðrar. 

Loftslagslíkön benda til þess að innstu reikistjörnurnar, TRAPPIST-1b, c og d séu sennilega of heitar til að geta viðhaldið fljótandi vatni, nema ef til vill á litlum hluta yfirborðs þeirra. TRAPPIST-1h er sennilegast of köld fyrir fljótandi vatn.

TRAPPIST-1e, f og g eru hins vegar mjög spennandi í hugum stjörnufræðinga því þær eru í lífbelti (habitable zone) stjörnunnar og gætu búið yfir hafsjó af fljótandi vatn. 

Búið er að beina Hubble geimsjónanukanum að sólkerfinu í leit að lofthjúpi í kringum reikistjörnurnar en niðurstöður liggja ekki fyrir strax.

Nánar á vefsíðu ESO .

Helstu upplýsingar um sólkerfið TRAPPIST-1

  • Stjarna: TRAPPIST-1 (rauð dvergstjarna)
  • Birtustig: 18,8
  • Fjarlægð frá Jörðu: 39,5 ljósár
  • Massi: 8% af massa sólar
  • Radíus: 11,7% af radíus sólar
  • Ljósafl: 0,05% af birtu sólar
  • Yfirborðshitastig: 2550°C
Reikistjörnur b c d e f g h
Umferðartími (lengd „árs‘ í jarðdögum) 1,51 2,42 4,05 6,10 9,21 12,35 20
Fjarlægð frá stjörnu (í milljónum km) 1,6 2,3 3,2 4,2 5,6 6,8 9,5
Radíus (jörðin = 1) 1,09 1,06 0,77 0,92 1,04 1,13 0,76
Massi (jörðin = 1) 0,85 1,38 0,41 0,62 0,68 1,34 -
Eðlismassi (jörðin = 1) 0,66 1,17 0,89 0,80 0,60 0,94  

Samanburður TRAPPIST-1 sólkerfinu og sólkerfinu okkar