„Sólarvörn“ rignir á Kepler-13Ab

Sævar Helgi Bragason 26. okt. 2017 Fréttir

Mælingar Hubble geimsjónauks NASA og ESA sýna að títanoxíð — efni sem er meginuppistaðan í sólarvörn — þéttist í ský og fellur sem úrkoma á næturhlið fjarreikistjörnunnar Kepler-13Ab. 

  • Teikning af Kepler-13Ab

Mælingar Hubble geimsjónauks NASA og ESA sýna að títanoxíð — efni sem er meginuppistaðan í sólarvörn — þéttist í ský og fellur sem úrkoma á næturhlið fjarreikistjörnunnar Kepler-13Ab. 

Kepler-13Ab fannst með Kepler-geimsjónaukanum árið 2011 þegar hún gekk fyrir móðurstjörnuna sína, Kepler-13A. Þvergangan gerði Hubble geimsjónaukanum kleift að fylgjast með því þegar sólarljós barst í gegnum lofthjúp hennar og skildi þannig eftir sig fingraför í litrófi stjörnunnar.  

Plánetan er rúmlega sex sinnum efnismeiri en Júpíter, langstærsta reikistjarnan í sólkerfinu okkar. Hún gengur um móðurstjörnuna á aðeins tæplega tveimur sólarhringum enda er einungis 6 milljón km í burtu frá henni.

Móðurstjarnan, Kepler-13A, er stærsta stjarnan í þrístirnakerfinu Kepler 13, um það bil tvöfalt efnismeiri en sólin og tæplega 8000 gráðu heit. Þrístirnið er í um 1700 ljósára fjarlægð frá Jörðinni.

Vegna nálægðar er yfirborðshitastigið á Kepler-13Ab ríflega 2500°C. Kepler-13Ab er því ein heitasta fjarreikistjarna sem vitað er um og flokkast sem heitur gasrisi .

Plánetan snýr alltaf sömu hliðinni að sólinni sinni, svo daghliðin er mun heitari en næturhliðin. Á næturhliðinni getur títanoxíðið þar af leiðandi þést og myndað ský en ekki á daghliðinni.

Mælingar af þessu tagi gera okkur kleift að skilja betur lofthjúpa reikistjarna í öðrum sólkerfum. Bættur skilningur á lofthjúpum fjarreikistjarna gerir okkur aftur kleift að túlka betur mælingar á bergreikistjörnum, sem gætu líkst Jörðinni, í framtíðinni.