Sprengistjarna í Messier 101

Sævar Helgi Bragason 10. jún. 2023 Fréttir

Gemini North sjónaukinn opnar augun á ný eftir viðgerð og skoðar nálæga sprengistjörnu

  • Sprengistjarna í Messier 101

Þann 19. maí 2023 varð stjarnvísindafólk vart við sprengistjörnu í Messier 101 sem stundum er kölluð Vindrelluþokan. Á myndinni sést sprengistjarnan skína skært í einum þyrilarmi vetrarbrautarinnar en hún er sú nálægasta sem sést hefur undanfarin fimm ár.

Ups_FB_cover

Messier 101 er í um 21 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Stórabirni. Sökum nálægðar sést hún auðveldlega með áhugamannasjónaukum og er því algengt viðfangsefni stjörnuáhugafólks og stjörnufræðinga. Messier 101 er þyrilvetrarbraut, um 170 þúsund ljósár í þvermál og því aðeins stærri en Vetrarbrautinni okkar.

Þann 19. maí síðastliðinn fann japanski stjörnufræðingurinn Koichi Itagaki sprengistjörnu í einum armi M101. Sprengistjarnan fékk skráarheitið SN 2023ixf og rendist hún við nánari athugun af gerð II.

Sprengistjörnur af gerð II verða til þegar mjög efnismiklar stjörnur, 8 til 50 sinnum massameiri en sólin, springa. Járn hefur þá safnast fyrir í kjarna stjörnunnar svo útgeislunin hættir. Ytri lög stjörnunnar hrynja inn á við, skella á kjarnanum og þjappa honum saman í nifteindastjörnu eða svarthol og stjarnan springur í tætlur. Við þyngdarhrunið falla ytri lög stjörnunnar á kjarnanna á allt að 250 milljón km hraða á klukkustund eða 23% af ljóshraða. Á örfáum sekúndum losnar álíka mikil orka og sólin okkar geislar frá sér á allri ævi sinni eða 10 milljörðum ára.

Mælingar á sprengistjörnum af gerð II veita stjörnufræðingum innsýn í þróun efnismikilla stjarna og örlög þeirra. Nálægð SN 2023ixf við Jörðina gerir atburðinn enn dýrmætari fyrir stjörnufræðinga.

Myndin var tekin með Gemini North sjónaukanum á Mauna Kea á Hawaii. Spegill sjónaukans varð fyrir skemmdum síðla árs 2022 en var lagfærður og endurhúðaður og komið fyrir í sjónaukanum á ný í maí 2023. Myndin sýnir glöggt hversu vel viðgerðin tókst. Á henni sjást stór, rauðbleik stjörnumyndunarský í rykugum þyrilörmunum og ungir, heitir og bláleitir stjörnuhópar.