Stjörnufræðingar finna heimskautalægð á Úranusi

Sævar Helgi Bragason 26. maí 2023 Fréttir

Vorkoma á norðurpóli Úranusar afhjúpar heimskautalægð

  • Heimskautalægð á Úranusi

Stjörnufræðingar sem notuðu Very Large Array útvarpssjónaukaröðina hafa fundið merki um heimskautalægð á norðurpóli Úranusi. Uppgötvunin sýnir að allar reikistjörnur, hvort sem þær eru úr grjóti eða gasi og skarta meiriháttar andrúmslofti, hafa heimskautalægðir. Uppgötvunin sýnir líka hversu tilþrifamikið veðrið er á öðrum reikistjörnum.

Ups_FB_cover

Árið 1986 sveif Voyager 2 gervitungl NASA framhjá Úranusi. Myndirnar ollu dálitlum vonbrigðum því Úranus reyndist heldur sviplaus og skorta tilþrifamiklu veðurkerfin sem aðrar reikistjörnur hafa. Merki sáust þó um ólgandi metanský í lægð við póla reikistjörnunnar og merki um mjög öfluga vinda. Engin merki sáust um hitastigsbreytingar en nýju mælingarnar breyta því.

Úranus er 84 ár að ganga um sólina. Þar sem reikistjarnan liggur á hlið beinast pólarnir að og frá sólu til skipist. Undanfarna áratugi hefur miðbaugurinn snúið að sólinni sem hefur gert okkur erfitt fyrir að kanna pólsvæðin.

Það hefur breyst nú þegar vorið er að ganga í garð á norðurpólnum og virkni að aukast samhliða þvi. Frá árinu 2015 hafa vísindamenn náð að skggnast dýpra inn í andrúmsloftið við norðurpólinn en áður.

Stjörnufræðingar notuðu útvarpssjónaukaröðina Very Large Array í Nýju Mexíkó til að skyggnast djúpt undir skýjahulu Úranusar. Mælingar voru gerðar árin 2015, 2021 og 2022 og leiða þær í ljós bjartan og þéttan blett á miðjum norðurpól Úranusar.

Mælingarnar sýna hærra hitastigi, þurrara andrúmsloft, hærri vindhraða og breytingar á dreifingu gastegunda í andrúmsloftinu. Allt þetta kemur heim og saman við þá skýringu að um heimskautalægð sé að ræða, sambærilegum þeim sem áður hafa sést á Satúrnusi og Neptúnusi. Niðurstöðurnar voru birtar í grein í Geophysical Research Letters .

Miðja lægðarinnar er hlýrri en nærliggjandi svæða. Svo virðist sem bletturinn hafi orðið bjartari frá 2015 og virðist því hafa sótt í sig veðrið þegar nálgast sólstöður á Úranusi.

Heimskautalægðir hafa nú fundist á pólum allra reikistjarna sólkerfisins að Merkúríusi undanskildri sem hefur ekki meiriháttar andrúmsloft. Vísindamenn munu fylgjast grannt með hvernig þessi nýfundna norðurheimskautslægð á Úranusi þróast á komandi árum.

Veðurspáin á Úranusi er annars ekki spennandi: Búist er við stormi, meira en 200 m/s og 220 stiga frosti.

Á teikniborðinu er leiðangur til Úranusar en eins og staðan er núna færi geimfarið ekki á loft fyrr en í fyrsta lagi árið 2031 og kæmi ekki áfangastað fyrr en upp úr 2044.