Stjörnufræðingar finna skífu í kringum stjörnu í annarri vetrarbraut í fyrsta sinn

Sævar Helgi Bragason 01. des. 2023 Fréttir

Sólkerfi fæðist í stóru stjörnumyndunarsvæði í Stóra Magellansskýinu

  • Eso2318b

Stjörnufræðingar sem notuðu ALMA sjónaukaröðina í Chile hafa fundið frumsólkerfisskífu í kringum unga stjörnu í Stóra Magellansskýinu, nágrannavetrarbraut okkar. Þetta er í fyrsta sinn sem skífa þar sem plánetur eru að myndast finnst utan Vetrarbrautarinnar. 

Hamfarir - Vísindalæsi

Stóra Magellansskýið er lítil vetrarbraut sem svífur eins og tungl í kringum Vetrarbrautina okkar í um 160 þúsund ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Í skýinu er stærðarinnar stjörnumyndunarsvæði sem kallast því „þjála“ skráarheiti LHA 120-N 180B. 

MUSE mælitækið á Very Large Telescope ESO hafði áður komið auga á stærðarinnar strók, ríflega 30 ljósár að lengd, á svæðinu. Þegar stjörnufræðingar beindu síðan Atacama Large Millimeter/submillimeter Array útvarpssjónaukaröðinni að honum kom í ljós að um frumsólkerfisskífu var að ræða, þá fyrstu sem finnst fyrir utan okkar eigin vetrarbraut.

„Við lifum á tímum ótrúlega örrar tækniþróunar í stjarnvísindum. Að geta rannsakað myndun stjarna í órafjarlægð í öðrum vetrarbrautum er mjög spennandi,“ sagði Anna McLeod, stjörnufræðingur við Durham-háskóla í Bretlandi og aðalhöfundur greinar um rannsóknina sem birt er í Nature. 

Fyrirbærið kallast Herbig-Haro 1177. Það verður til þegar stjarnan togar efni til sín svo það flest út í skífu sem snýst. Efni sem stjarnan gleypir ekki þeytist burt frá pólum hennar svo strókar verða til. Stjarnan sem þarna er að verða til er mjög efnismikil. Slíkar stjörnur fæðast miklu hraðar og lifa líka mun skemur en lágmassastjörnur eins og sólin okkar.

Eso2318c

Mynd MUSE af ungu sólkerfi í mótun, HH 1177, í Stóra Magellansskýinu. Mynd: ESO/A. McLeod et al./M. Kornmesser

Frétt frá ESO