Tunglmyrkvi föstudagsmorguninn 19. nóvember 2021

Sævar Helgi Bragason 15. nóv. 2021 Fréttir

  • Tunglmyrkvinn 28. september 2015

Föstudagsmorguninn 19. nóvember 2021 verður deildarmyrkvi á tungli sjáanlegur frá Íslandi – ef veður leyfir. Deildarmyrkvinn hefst kl. 07:19 og er í hámarki kl. 09:03 og lítur þá út svipað og á myndinni hér fyrir ofan. Tunglið sest aftur á móti kl. 10:20 áður en deildarmyrkvanum lýkur. Ekki þarf að notast við nein hjálpartæki til fylgjast með myrkvanum. Augu er allt sem þarf þótt enn skemmtilegra sé að nota handsjónauka eða stjörnusjónauka.

Solkerfid_coverTunglmyrkvar verða þegar sólin, Jörðin og tunglið mynda nokkurn veginn beina línu. Jörðin varpar skugga út í geiminn sem tunglið gengur inn í. Tunglmyrkvar sjást þess vegna aðeins á fullu tungli og frá allri næturhlið Jarðar í einu. Frekari fróðleik umtunglmyrkva er að finna hér .

Tunglmyrkvar eru þrenns konar: Hálfskuggamyrkvar, deildarmyrkvar og almyrkvar. Myrkvinn 19. nóvember 2021 er deildarmyrkvi sem er næstum því almyrkvi. Þegar deildarmyrkvinn er í hámarki eru 97% tunglsins almyrkvuð. Aðeins 3% af syðstu brún tunglsins verður í ljósari hluta jarðskuggans. Myrkvinn sést frá Norður- og Suður-Ameríku, Ástralíu og að hluta til frá Evrópu og Asíu.

Þegar myrkvinn er í hámarki tekur tunglið engu að síður á sig samskonar rauðleitan blæ eins og við almyrkva. Í daglegu tali hefur þar stundum verið talað um „blóðmána“.

Rauða litinn má rekja til sólarljóss sem berst í gegnum andrúmsloft Jarðar á þeim tíma. Rauði liturinn er með öðrum orðum ljós frá öllum sólsetrum og sólrisum á Jörðinni í einu.

Hvert á að horfa?

Þegar deildarmyrkinn hefst er tunglið lágt á lofti í vestri en nálægt sjóndeildarhring í vest-norðvestri við hámarkið eins og sjá má myndinni hér undir.

Screenshot-2021-11-15-at-10.41.01Mikilvægt er að hvorki há fjöll né háar byggingar skyggi á útsýnið til vesturs. Við hámarkið er farið að birta að degi og sýnileikinn þá minnkað sem því nemur. Skammt norðan við tunglið sést stjörnuþyrpingin Sjöstirnið í Nautinu .

Tunglið verður orðið áberandi rauðleitt upp úr klukkan 08:45 en áhugavert er að fylgjast með aðdragandum þegar deildarmyrkvinn hefst. Þá sést vel staðfesting á hnattlögun Jarðar.

Deildarmyrkvinn nú er óvenju langur. Ástæða þess er að tunglið er nálægt því að vera lengst frá Jörðinni – í jarðfirrð – eða í næstum 405.000 km fjarlægð frá Jörðu. Því lengra í burtu frá Jörðu sem tunglið er, því hægar gengur það um Jörðina. Tunglið er þá lengur að ferðast í gegnum skugga Jarðarinnar.

Frá upphafi til enda er tunglmyrkvinn allur 6 stunda og 2 mínútna langur. Þetta er lengsti deildarmyrkvinn síðan á 15. öld, nánar tiltekið síðan 18. febrúar árið 1440.  Næsti álíka langi deildarmyrkvi verður 8. febrúar árið 2669.

Helstu tímasetningar myrkva (námundað að næstu heilu mínútu)

  • Hálfskuggamyrkvi hefst: 06:02
  • Deildarmyrkvi hefst: 07:19
  • Deildarmyrkvi í hámarki: 09:03
  • Deildarmyrkva lýkur: 10:47
  • Hálfskuggamyrkva lýkur: 12:04

Athugið að sólarupprás í Reykjavík þennan morgun er kl. 10:10 en kl. 10:11 á Akureyri, áður en deildarmyrkvanum lýkur.

Solkerfid_cover