Vetrarsólstöður 21. desember 2017

Sólargangur lengist á ný

Sævar Helgi Bragason 21. des. 2017 Fréttir

Fimmtudaginn 21. desember 2017 kl. 16:28 verða vetrarsólstöður á norðurhveli Jarðar. Sólin er þá syðst og lægst á himinhvolfinu, dagurinn stystur en nóttin lengst fyrir íbúa á norðurhveli

  • Jörðin nálægt sólstöðum 2017

Fimmtudaginn 21. desember 2017 kl. 16:28 verða vetrarsólstöður á norðurhveli Jarðar. Sólin er þá syðst og lægst á himinhvolfinu, dagurinn stystur en nóttin lengst fyrir íbúa á norðurhveli. Á suðurhveli er þessu öfugt farið. Þar heldur fólk upp á sumarsólstöður.

851x315_Saevar

Í Reykjavík rís sólin kl. 11:22 en sest kl. 15:29 svo fullrar birtu nýtur í rétt rúmar fjórar klukkustundir. Akureyri er nær heimskautsbaug svo þar er sólin klukkustund skemur á lofti. Þar rís hún ekki fyrr en kl. 11:38 og sest kl. 14:42. Sjá hér upplýsingar um sólargang .

Á myndinni hér undir sést dagur og nótt á vetrarsólstöðumínútunni 2017. Á norðurpólnum ríkir hrollköld heimskautanóttin allan sólarhringinn en á suðurpólnum er endalaus dagsbirta.

Vetrarsólstöður 2017

Möndulhalli Jarðar er ástæða þess að þetta gerist. Jörðin er ekki upprétt í geimnum, heldur hallar snúningsás hennar miðað við sólbauginn, flötinn sem hún ferðast eftir í kringum sólina. Hallinn sjálfur breytist ekki og þess vegna halla norður- og suðurhvel að og frá sólu til skiptis. Möndulhallinn veldur því að sólin er mishátt á lofti yfir árið. Þegar norðurhvel hallar að sólinni er sól hæst, í júní, en þegar norðurhvel hallar frá sólinni er sól lægst.

Munurinn á halla Jarðar við sumarsólstöður annars vegar og vetrarsólstöður hins vegar er mjög áberandi á þessum myndum frá DSCOVR gervitunglinu.

Jordin-sumarsolstodur-epic_1b_20170621154341Jörðin nálægt sólstöðum 2017