Vígahnöttur sprakk yfir Ermasundi (uppfært)

Sævar Helgi Bragason 13. feb. 2023 Fréttir

Margir urðu vitni að sjónarspili þegar 1 metra breitt smástirni sprakk yfir Ermasundi. Þetta er í sjöunda sinn sem steinn finnst áður en hann skellur á Jörðina.

  • Vígahnöttur yfir Ermasundi 13. febrúar 2023

Klukkan 02:59:21 að íslenskum tíma aðfaranótt mánudagsins 13. febrúar sprakk bjartur vígahnöttur yfir Ermasundi. Margt fólk varð vitni að sjónarspilinu og fönguðu það á mynd og myndskeið.

Steinninn fannst á myndum sem teknar voru í stjörnuathugunarstöð í Ungverjalandi sunnudagskvöldiði 12. febrúar, örfáum klukkustundum áður en það skall á Jörðina.

Steinninn fékk fyrst tímabundna skráarheitið Sar2667 en skömmu seinna formlega smástirnaskráningu sem 2023 CX1. Birtumælingar sýndu að hann var um það bil 1 metri að stærð og því alltof smár til að valda skaða.

Útreikningar sýndu að steinninn kæmi inn í andrúmsloftið yfir Frakklandi klukkan 02:59 að íslenskum tíma aðfaranótt mánudagsins 13. febrúar og splundrast yfir Ermasundi.

Sem betur fer voru veðuraðstæður í suðurhluta Bretlands og norðurhluta Frakklands góðar fyrir áhugafólk að fara út og fanga sjónarspilið á mynd. Sjá má fjölda myndskeiða á vef Alþjóða loftsteinasambandsins .

Steinninn riður loftinu á undan sér, svo loftið byrjar að glóa. Slóðin verður skærari þegar efni brotnar af steininum. Ljósblossinn verður loks skærastur þegar hámarkshitun á sér stað og steinninn springur. Eftir situr slóð úr ryki og gufu.

Þetta er sjöunda smástirnið sem finnst áður en það skellur á Jörðinni. Í mars í fyrra (2022) sprakk smástirni norðan Íslands sem hafði fundist skömmu áður . Á Norðurlandi sáu sjónarvottar bjartan ljósblossa þegar steinninn sprakk yfir Íslandshafi.

Á miðvikudag verða tíu ár liðinn frá því að 20 metra breitt smástirni sprakk yfir borginni Chelyabinsk í Rússlandi og olli þar talsverðu tjóni.

Uppfært 17. febrúar 2023

Vígahnötturinn birtist fyrst í 89 km hæð. Hámarksbirtu var náð í 27,3 km hæð og hvarf vígahnötturinn í 20 km hæð. Athuganir benda til að steinninn hafi byrjað að brotna upp í 29 km hæð og dreifðust brot úr honum yfir Normandí.

Myndskeið hjálpuðu til við að miða út svæðið þar sem brotin féllu. Vísindafólk hélt á staðinn 15. febrúar og fundu þá fyrstu brotin úr vígahnettinum.

Loftsteinn-normandi-lois-leblanc

Hin 18 ára Lois Leblanc fann fyrsta brotið úr 2023 CX1 smástirninu. Myndir: FRIPON/Vigie-Ciel

Loftsteinn-2023-cx1