Webb beinir sjónum að sprengistjörnuleifinni Cassiopeia A

Sævar Helgi Bragason 10. apr. 2023 Fréttir

Cassiopeia A er leifar stjörnu sem sprakk fyrir 340 árum

  • Sprengistjörnuleifin Cassiopeia A

Sprengistjörnuleifar eru sérstaklega glæsileg fyrirbæri á himni. James Webb sjónaukinn beindi nýverið sjónum sínum að einni slíkri sem kallast Cassiopeia A og er leifar stjörnu sem sprakk fyrir 340 árum.

Cassiopeia A er í 11 þúsund ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Enginn varð vitni að sprengingunni og fundust leifarnar ekki fyrr en árið 1947 í stjörnumerkinu Kassíópeiu . Nafn hennar vísar til þess að hún er mjög skær útvarpslind á himninum.

Efst á mynd Webbs sjást rauðar og rauðgular slæður. Þar er efni frá sprengistjörnunni að rekast á ryk úr útgeimnum. Við það hitnar rykið hitnar og glóir.

Innar í skýinu sjást ljósbleikir og ljósgulir þræðir með hnútum og kökkum. Þar eru þungmálmar og ryk frá sprengistjörnunni sjálfri að lýsa. Grænu slæðurnar eru óútskýrðar.

Meðal þess sem Cassiopeia A gæti hjálpað okkur að svara varðar uppruna ryks í geimnum. Mælingar á ungum vetrarbrautum í árdaga alheimsins sýna að þær eru mjög rykugar. Erfitt er að útskýra tilurð ryksins án þess að sprengistjörnur komi við sögu en þær kasta frá sér og dreifa miklu magni af þungum frumefnum út í geiminn.

Mælingar á sprengistjörnum hafa hingað til ekki náð að útskýra nægilega vel rykmagnið sem mælist í ungum vetrarbrautum. Vonandi geta athuganir Webbs á Cassiopeia A hjálpað okkur þar.

Sprengistjarna eins og sú sem myndaði Cassiopeia A eru nauðsynlegar lífi eins og við þekkjum það. Þær dreifa frumefnum eins og kalsíuminu sem beinin okkar eru gerð úr og járninu í blóðinu okkar um geiminn. Innan í þér eru leifar löngu sprunginna stjarna sem svipaði til Cassiopeia A.