Webb finnur kolefni á yfirborði Evrópu

Sævar Helgi Bragason 23. sep. 2023 Fréttir

Lykilhráefni lífs finnst á ungu sprungusvæði og virðist ættað úr hafinu undir Evrópu

  • Evrópa á ljósmynd Webb geimsjónaukans

Stjörnufræðingar sem notuðu James Webb geimsjónaukann hafa fundið koldíoxíð á ungu svæði á ísilögðu yfirborði Júpíterstunglsins Evrópu. Líklegt er að kolefnið komi ekki frá loftsteinum eða öðrum utanaðkomandi öflum, heldur megi rekja beint til hafsins undir ísnum. Uppgötvunin er mikilvæg vísbending um lífvænleika þessa einstaka tungls.

Hamfarir - Vísindalæsi

Tunglið Evrópa við Júpíter er álíka stórt og tunglið okkar. Undir hnausþykkri vatnsísskorpunni hafa vísindin fundið saltan sjó og grýttan hafsbotn þar sem gætu verið háhitasvæði. Á Evrópu gætu því verið aðstæður fyrir frumstætt líf.

Á Jörðinni er kolefni lykilhráefni lífsins. Við erum vatns- og kolefnislífverur. Meiri þekking á efnafræði Evrópu hjálpar okkur því að skilja betur hvort tunglið sé í raun lífvænlegt. Kolefni gegnir þar veigamiklu hlutverki.

Webb geimsjónaukinn hentar ákaflega vel til efnagreininga. Þegar sjónaukanum var beint að Evrópu fann hann koldíoxíð í talsverðu magni á svæði sem kallast Tara Regio. Þetta er ungt óreiðusvæði (chaos terra) þar sem yfirborðsísinn hefur sprungið og færst til og efni úr hafinu undir virðist hafa ollið upp til yfirborðsins. 

Koldíoxíð er óstöðugt á yfirborði Evrópu og finnst á ungu svæði. Þess vegna er líklegt að efnið hafi borist tiltölulega nýlega upp til yfirborðsins.

Weic2323c-evropa-webb

Mælingar Webb geimsjónaukans á Evrópu. Myndin lengst til vinstri sýnir Evrópu og ljósleita svæðið Tara Regio en við vinstri jaðarinn er Powys Regio. Myndir tvö og þrjú sýna kristallað koldíoxíð og fjórða myndin flóknara og formlausara koldíoxíð. Mynd: NASA, ESA, CSA, G. Villaneuva (NASA/GSFC), S. Trumbo (Cornell háskóli), A. Pagan (STScI)

„Eldri mælingar Hubble sýna að á Tara Regio eru merki um sölt úr hafinu undir. Nú höfum við líka komið auga á koldíoxíð þar í talsverðum mæli. Við teljum þetta benda til þess að koldíoxíðið sé ættað úr hafinu,“ sagði Samantha Trumbo hjá Cornell háskóla í Ithaca í Bandaríkjunum og aðalhöfundur greinar um rannsóknina sem birtist í Science 21. september 2023.

Webb leitaði líka að merkjum um vatnsstróka stíga eins og goshveri út úr skorpu Evrópu sem Hubble geimsjónaukinn hefur fundið vísbendingar um. Webb sá þó engin merki um þá en ekki er hægt að útiloka að þeir séu raunverulegir. Sá möguleiki er fyrir hendi að strókarnir séu breytilegir og sjáist aðeins á ákveðnum tímum.

Ekki er vitað að hve miklu leyti hafið á Evrópu víxlverkar við yfirborðið. Stutt er þangað til við komumst betur að því. Í apríl á þessu ári skaut ESA á loft JUICE gervitunglinu sem á að rannsaka Evrópu og hin ístunglin, Kallistó og Ganýmedes. Í október á næsta ári sendir NASA á loft Europa Clipper gervitunglið sem á að fljúga reglulega nálægt Evrópu og gera miklu ítarlegri mælingar á því. 

Óhætta er að segja að með Webb, JUICE og Europa Clipper séu spennandi tímar séu framundan í rannsóknum á Evrópu.

Weic2323b-evropa-webb

Evrópa á mynd Webb geimsjónaukans. Ljósa bletturinn á skífunni er óreiðusvæðið Tara Regio sem er ungt sprungusvæði í ísnum. Þar fann Webb sönnunargögn fyrir koldíoxíði sem er líklega ættað úr hafinu undir ísnum. Ljósleita svæðið við jaðarinn vinstra megin kallast Powys Regio. Mynd: NASA, ESA, CSA, G. Villaneuva (NASA/GSFC), S. Trumbo (Cornell háskóli), A. Pagan (STScI)

Frétt frá ESA