Webb og Hubble taka litríka mynd af alheiminum

Sævar Helgi Bragason 10. nóv. 2023 Fréttir

Geimsjónaukarnir skoða þyrpingu vetrarbrauta í 4,3 milljarða ljósára fjarlægð

  • Vetrarbrautaþyrpingin MACS 0416

Geimsjónaukarnir Hubble og Webb hafa sameinað krafta sína og tekið djúpa mynd af fjarlægri þyrpingu vetrarbrauta. Myndin er ein sú litríkasta sem tekin hefur verið af fyrirbærum í geimnum, því á henni má sjá ljós með bylgjulengdir milli 400 og 5000 nanómetra, frá innrauðu ljósi yfir í sýnilegt og útfjólublátt.

Hamfarir - Vísindalæsi

Vetrarbrautaþyrpingin sem hér sést kallast MACS0416. Raunar er um að ræða tvær þyrpingar að rekast saman í um 4,3 milljarða ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Þyrpingin birtist okkur því eins og hún leit út aðeins 200 milljón árum eftir að sólkerfið og þar af leiðandi Jörðin urðu til.

Litir vetrarbrautanna hjálpa okkur að meta vegalengdina til þeirra. Bláustu vetrarbrautirnar eru tiltölulega nálægar og bera gjarnan merki um mikla nýmyndun stjarna, eins og Hubble sér vel. 

Rauðari vetrarbrautir eru alla jafna mun fjarlægari. Sumar af nálægari vetrarbrautum gætu líka sýnst rauðar ef mikið ryk er milli okkar og þeirra sem gleypir bláa ljósið.

Athuganir Hubble geimsjónaukans voru gerðar árið 2014. Innrauðar mælingar Webb geimsjónaukans voru síðan ekki aðeins gerðar til að nema dauf og fjarlæg fyrirbæri, heldur líka breytileg fyrirbæri: Annars vegar sprengistjörnur og hins vegar venjulegar stjörnur sem birtast í skamma stund vegna linsuhrifa.

Vetrarbrautaþyrpingin MACS 0416

Á myndinni hafa fundist fjórtán breytilleg fyrirbæri. Tvö eru sprengistjörnur en restin sennilega stjörnur sem fyrirbæri í forgrunni magna upp, eins og náttúrulegt stækkunargler. 

Einna forvitnilegast er ljós frá því sem eru líklega tvær risastjörnur sem skinu skært 3 milljörðum ára eftir Miklahvell. Þyngdarkrafturinn í þyrpingunni fyrir framan magnar upp ljósið frá þeim að minnsta kosti 4000 falt. Hefur þeim verið gefið nafnið Mothra eftir risaskrímslii úr japönskum kvikmyndum.

Mothra sést líka á eldri myndum Hubble geimsjónaukans. Það er einkennilegt því stjörnurnar sjálfar og þyrpingin fyrir framan ættu að hafa hliðrast til nægilega mikið til að linsuhrifin hverfi níu árum síðar. 

Tilgátan er sú, að eitthvað annað fyrirbæri nær stjörnunum sjálfum, sennilega 10 þúsund til milljón sinnum efnismeira en sólin, magni líka upp ljósið frá þeim, til dæmis kúluþyrping. 

Weic2327b

Risastjörnurnar Mothra magnast upp af völdum linsuhrifa. Mynd: NASA, ESA, CSA, STScI, J. Diego (Instituto de Física de Cantabria, Spain), J. D'Silva (U. Western Australia), A. Koekemoer (STScI), J. Summers & R. Windhorst (ASU), og H. Yan (U. Missouri).

Frétt frá ESA