Webb nær einstakri mynd af sólkerfisskífu Fomalhaut

Sævar Helgi Bragason 08. maí 2023 Fréttir

Tvö áður óséð rykbelti og gasský sem er líklega leifar áreksturs sjást á mynd Webbs

  • Rykskífa Fomalhaut

Stjörnufræðingar sem notuðu James Webb geimsjónaukann hafa náð einstökum myndum af rykskífunni í kringum stjörnuna Fomalhaut. Á myndunum sjást tvö áður óséð rykbelti til viðbótar við það þriðja og ysta sem við vissum af áður. Myndin gefur góða hugmynd um hvernig sólkerfið okkar leit út þegar það var að mótast fyrir 4600 milljónum ára.

Fomalhaut er skærasta stjarnan í stjörnumerkinu Suðurfisknum. Stjarnan er ung og umlukin rykskífu sem fannst árið 1983. Hún liggur vel við athugun vegna þess að stjarnan er í aðeins 25 ljósára fjarlægð frá Jörðinni.

Ups_FB_cover

Í rykskífunni er sólkerfi að verða til og hafa sjónaukar á borð við Hubble og ALMA náð góðum myndum af ysta rykbeltinu . Á mynd Webb kemur í ljós að þetta belti er ríflega tvöfalt breiðara en Kuipersbeltið og nær 23 milljarða kílómetra frá stjörnunni. Það jafngildir 150-földu bilinu milli Jarðar og sólar.

Enginn annar sjónauki hefur þó náð álíka mynd af sólkerfisskífunni og Webb. Webb er sömuleiðis fyrsti sjónaukinn til að nema hitageislunina frá rykinu næst stjörnunni. Önnur eins smáatriði hafa aldrei sést fyrr.

Með því að skoða mynstur og kekki í hringjunum er hægt að finna út reikistjörnur eru að fæðast. Þyngdarkrafturinn frá óséðum reikistjörnum mótar beltin, rétt eins og í sólkerfinu okkar. Þannig hefur Júpíter áhrif á smástirnabelið og Neptúnus á Kuipersbeltið.

Á mynd Webb sést ennfremu stórt rykský í ytri hringnum í skífunni sem gæti verið merki um árekstur tveggja hnatta. Þetta er annað fyrirbæri en sást á myndum sem Hubble tók árið 2008 og talið var reikistjarna í fyrstu en myndir árið 2014 sýndu að hafði horfið. Líklega hefur þar líka verið um að ræða rykský úr afar fínum rykögnum eftir árekstur tveggja hnatta.

Rykskífa Fomalhaut

Niðurstöðurnar voru birtar í Nature Astronomy.