Webb sjónaukinn sér ólgandi silikatský á fjarlægri reikistjörnu

Sævar Helgi Bragason 22. mar. 2023 Fréttir

Byltingarkenndar mælingar Webb geimsjónaukans á andrúmslofti VHS 1256 b

  • Weic2308a

Stjörnufræðingar sem notuðu James Webb geimsjónaukann hafa komið auga á ský úr silikötum í andrúmslofti fjarlægrar reikistjörnu. Í andrúmsloftinu eru iðustraumar sem hrærir stöðugt í skýjunum og valda því að reikistjarnan er sú breytilegasta sem vitað er um.

Reikistjarnan umrædda kallast VHS 1256 b. Hún er 19 sinnum efnismeiri en Júpíter og gengur um tvo brúna dverga á 10 þúsund árum. Þetta framandi kerfi er í um 40 ljósára fjarlægð frá Jörðinni og sennilega ekki meira en 150 milljón ára eða svo.

VHS 1256 b liggur vel við athugun því hún er fjórfalt fjær móðurstjörnunum en Plútó er frá sólinni. Þess vegna truflar daufur varminn frá brúnu dvergunum ekki hitageislunina frá reikistjörnunni og Webb nemur. Webb gat því gert beinar mælingar á reikistjörnunni í stað þess að stóla á óbeinar aðferðir eða kórónusjá.

Mælingar Webbs eru byltingarkenndar og einstakar. Aldrei áður hafa fundist jafn margar sameindir í einu á reikistjörnu handan sólkerfisins. Merki fundust um vatnsgufu, metan, kolmónoxíð og koldíoxíð í andrúmslofti reikistjörnunnar.

Weic2308b

Litrófsmælingar Webb geimsjónaukans af andrúmslofti VHS 1256 b.
Mynd: NASA, ESA, CSA, J. Olmsted (STScI), B. Miles (University of Arizona), S. Hinkley (University of Exeter), B. Biller (University of Edinburgh), A. Skemer (University of California, Santa Cruz)

Hitastigið reyndist um 830 gráður á Celsíus. Í andrúmsloftinu eru ólgandi iðustraumar sem lyfta og hræra upp í heitara efni úr iðrum reikistjörnunnar og þrýsta kaldara efni niður á við. 

Fyrir vikið verða birtubreytingar sem eru svo miklar að um er að ræða breytilegustu reikistjörnu sem vitað er um. Mælingarnar sýna líka að reikistjarnan snýst um sjálfa sig á 22 klukkustundum.

Hátt í andrúmsloftinu fundust merki um ský úr stórar og litlar silikatagnir. Fínustu agnirnar eru sennilega svipaðar rykögnum í reykjarmekki en þau stærri eru líklega svipuð og heit gosaska eða sandur.

Siliköt eru steindir, byggingareiningar steina, sem innihalda kísil og súrefni. Á Jörðinni eru kísill og súrefni tvö algengust frumefni jarðskorpunnar og er jarðskorpan því að mestu leyti úr silikötum.

Svo hver verða örlög reikistjörnunnar? Á næstu milljörðum ára mun hún halda áfram að breytast og kólna. Þá tekur silikatrykið að falla niður á við svo smám saman léttir til.