Webb skoðar ungstirni í fæðingu

Sævar Helgi Bragason 14. sep. 2023 Fréttir

Í Herbig-Haro 211 er stjarna á borð við sólina okkar að fæðast, raunar tvær

  • Herbig-Haro 211

Á þessari nýju og glæsilegu mynd Webb geimsjónaukans sést stjarna sem svipar til sólarinnar okkar fæðast. Fyrirbærið heitir Herbig-Haro 211 (HH 211) og verður til þegar ung stjarna í mótun í miðjunni varpar tveimur gasstrókum út í geiminn á ógnarhraða. 

Herbig-Haro 211 er í um 1000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Perseifi. Innan í dökka svæðinu í miðjunni er sól að verða til – reyndar sennilega tvær sólir. 

Stjörnurnar eru líklega aðeins nokkurra tuga þúsunda ára gamlar. Að minnsta kosti önnur þeirra verður á endanum svipuð sólinni okkar.

Strókurinn verður til þegar stjarnan dregur til sín gasið og rykið úr skýinu sem hún fæðist úr. Stundum draga stjörnur gasið og rykið svo hratt að efnið streymir eftir pólunum og þýtur út í geiminn. Við þetta hægir á snúningi stjarnanna og umhverfi hreinsast af efni. Yfir þúsundir ára ræður þessi efnisstraumur því hve massamiklar stjörnurnar verða á endanum.

Webb geimsjónaukinn hentar sérstaklega vel til að rannsaka þessi skref í myndun stjarna. Á þessu æviskeiði er stjarnan hulin ryki sem Webb sér í gegnum.