Webb starir á fæðingarstað stjarna við miðju Vetrarbrautarinnar

Sævar Helgi Bragason 20. nóv. 2023 Fréttir

Sagittarius C inniheldur um það bil 500 þúsund stjörnur, nýmyndaðar eða að myndast

  • Sagittarius C

Á þessari nýju mynd frá James Webb geimsjónaukanum sést þétt stjörnumergð í miðju Vetrarbrautarinnar. Svæðið er myndunarstaður stjarna sem kallast Sagittarius C og er í aðeins um 300 ljósára fjarlægð frá risasvartholinu í miðjunni.

Hamfarir - Vísindalæsi

Í þypringunni Sagittarius C er um það bil 500 þúsund stjörnur, flestar nýfæddar eða að verða til. Í miðju þyrpingarinnar kom Webb auga á áður óþekkta ofurrisastjörnu sem vegur á við 30 sólir. Svæðið er í um 25 þúsund ljósára fjarlægð frá Jörðinni.

Geimskýið sem stjörnurnar eru að klekjast úr er svo þétt, að ljósið frá stjörnum handan þess berst ekki til Webbs. Svæðið virkar því ekki eins þéttskipað stjörnum og það er í raun og veru.

Blágræni bjarminn stafar af vetni í þokunni sem hefur jónast af völdum orkuríks ljóss frá efnismiklum ungstirnum. Hins vegar kemur á óvart hversu viðfem jónunin er og kallar það á frekari rannsóknir. Auk þess er erfitt að útskýra nálagarlaga myndanirnar í skýinu.

Myndin var tekin fyrir rannsókn með Webb sem snýst um að kanna myndun stjarna í mismunandi umhverfi í vetrarbrautum.

Sagittarius C

Mynd: NASA, ESA, CSA, STScI, S. Crowe (UVA)

Frétt frá ESA