Webb uppgötvar nýtt fyrirbæri í lofthjúpi Júpíters

Sævar Helgi Bragason 19. okt. 2023 Fréttir

Í áður óséðri vindröst í heiðhvolfinu yfir meginskýjaþykkninu mælist vindhraðinn 140 m/s

  • Jupiter-webb

Stjörnufræðingar sem notuðu James Webb geimsjónaukann hafa komið auga á áður óþekkt fyrirbæri hátt í andrúmslofti Júpíters: Háhraða skotvind eða vindröst við miðbauginn sem liggur yfir skýjaþykkni Júpíters og er um það bil 5000 km breið. Uppgötvunin veitir innsýn í hvernig mismunandi skýjalög í ólgandi andrúmslofti Júpíters víxlverka.

Hamfarir - Vísindalæsi

Gasrisinn Júpíter kemur enn og aftur á óvart. Þótt stjörnufræðingar hafi rannsakað hann með Hubble geimsjónaukanum og gervitunglum á borð við Galíeló, Juno og Cassini gefur Webb allt aðra sýn á Júpíter.

Webb sér lengra inn í nær-innrauða sviðið en önnur mælitæki og nemur háloftalög í andrúmsloftinu sem eru í um það bil 25-50 kílómetra hæð yfir megin-skýjaþykkninu. Í nær-innrauðu ljósi er háloftaþokan jafnan móðukennd en skýr og skörp á myndum Webbs.

Webb tók myndir af Júpíter á tíu klukkustunda frest í júlí 2022 og báru stjörnufræðingarnir þær saman við gögn sem Hubble aflaði degi síðar. Í ljós kom áður óþekkt vindröst í neðri hluta heiðhvolfsins við miðbaug Júpíters og mældist vindhraðinn meira en 140 m/s. Það er tvöfalt meiri vindhraði en í fimmta stigs fellibyl á Jörðinni.

Webb-jupiter-skotvindur

Nær-innrauðar ljósmyndir Webb sjónaukans sýna áður óþekkta vindröst við miðbaug reikistjörnunnar. Mynd: NASA, ESA, CSA, STScI, Ricardo Hueso (UPV), Imke de Pater (UC Berkeley), Thierry Fouchet (Observatory of Paris), Leigh Fletcher (University of Leicester), Michael H. Wong (UC Berkeley), Joseph DePasquale (STScI)

„Það er magnað að hugsa til þess að þótt við höfum vaktað skýin og vindana á Júpíter árum saman með ýmsum mælitækjum skulum við enn eiga margt ólært um Júpíter og að fyrirbæri eins og þessi skotvindur hafi getað farið framhjá okkur þar til núna,“ sagði Leigh Fletcher, stjörnufræðingur við Leicester-háskóla í Bretlandi sem tók þátt í rannsókninni.

Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Nature Astronomy.

Frétt frá NASA