Áður óþekkt tegund stjörnu gefur vísbendingar um uppruna segulstjarna

Sævar Helgi Bragason 17. ágú. 2023 Fréttir

Helíumrík stjarna er segulmagnaðasta „hefðbunda“ stjarna sem fundist hefur

  • Teikning af segulstjörnu

Segulstjörnur eru sterkustu seglar alheimsins. Þessar þéttu leifar stjarna finnast víða um Vetrarbrautina og hafa ofursterkt segulsvið. Uppruni þeirra hefur verið stjörnufræðingum ráðgáta en nú hefur í fyrsta sinn fundist ný tegund stjörnu sem líklegt er að endi ævina sem segulstjarna.

Ups_FB_cover

HD 45166 er tvístirni í um 3000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Einhyrningnum. Þetta sérkennilega tvístirnakerfi hefur valdið stjörnufræðingum nokkrum heilabrotum í meira en öld. Önnur stjarnan, sú skrítnari, er helíumrík hálfgerð Wolf-Rayet stjarna sem vegur á við tvær sólir. Við hlið hennar er önnur stjarna af B-gerð og snúast þær um sameiginlega massamiðju á ríflega 20 árum.. 

„Stjarnan hefur orðið að dálítilli þráhyggju hjá mér,“ sagði Tomer Shenar, stjörnufræðingur við Amsterdamháskóla. Teymi hans setti upp mælingaherferð til að átta sig betur á eðli stjörnunnar og notuðu til þess ýmsa sjónauka víða um heim, þar á meðal sjónauka ESO í Chile og sjónauka Canada-France-Hawaii sjónaukann á Hawaii. 

NIðurstöðurnar leiddu sömuleiðis í ljós að HD 45166 er efnisminni en áður var talið eða um tveir sólmassar. Sömuleiðis er fjarlægðin milli stjarnanna tveggja í kerfinu lengri en talið var. Að auki benda niðurstöðurnar til þess að HD 45166 hafi orðið til við samruna tveggja smærri helíumríkra stjarna.

Markverðasta niðurstaðan var aftur á móti ótrúlega sterkt segulsvið helíumríku stjörnunnar en það mælist 43 þúsund gauss. Til samanburðar er styrkur segulsviðs jarðar aðrins 0,25 til 0,65 gauss. Öll stjarnan er álíka segulmögnuð og sterkustu seglar sem menn hafa smíðað. Stjarnan er, með öðrum orðu, mest segulmagnaða „hefðbundna“ stjarna sem fundist hefur. Raunar er um að ræða áður óþekkta gerð stjörnu:

Niðurstöður mælinganna og útreikningar stjarneðlisfræðinganna benda til þess, að þessi stjarna muni enda ævina sem segulstjarna. Þegar hún hrynur saman á endanum undan eigin þyngdarkrafti þjappast segulsviðið saman og styrkist. Að lokum verður styrkur segulsviðsins um það bil 100 billjón gauss - þúsund milljón sinnum sterkara en það er nú. Stjarnan verður þá sterkasti segull í alheiminum.

Noirlab2323b-segulstjarna-throun

Skýringarmynd af myndun segulstjörnu. Efst sést tvístirnakerfið HD 45166 eins og það er í dag. Í miðjunni sést þegar segulmagnaða stjarnan springur sem mjög skær en ekki sérstaklega orkurík sprengistjarna. Þá hrynur kjarninn saman og þjappar segulsviðinu saman. Á endanum (neðst) situr nifteindastjarna eftir með sterkasta segulsvið sem þekkist. Mynd: NOIRLab/AURA/NSF/P. Marenfeld/M. Zamani

Frétt frá ESO

Frétt frá NOIRLab