Hvað er framundan árið 2024?

Sævar Helgi Bragason 03. jan. 2024 Fréttir

Árið 2024 fara nýir og spennandi leiðangrar á loft. Þá sjást deildarmyrkvar á sólu og tungli frá Íslandi.

Óhætt er að segja að spennandi stjarnvísinda- og stjörnuskoðunarár sé framundan. Þrír nýir könnunarleiðangrar hefjast til Mars, Evrópu og tveggja smástirna. Áhugafólk um stjörnuskoðun fær sömuleiðis sitthvað fyrir sinn snúð. Öllum þessum atburðum verða gerð góð skil þegar þar að kemur.

Janúar - Námskeið í stjörnufræði og stjörnuskoðun hjá Endurmenntun

Hefur þú áhuga á að læra meira um stjörnuhiminninn og stjörnufræði almennt? Þann 31. janúar hefst námskeið hjá Endurmenntun Háskóla Íslands sem undirritaður kennir. Farið verður í stjörnuskoðun þegar veður leyfir.

Nánari upplýsingar og skráning hér.

Febrúar - Pláneturnar - fjölskyldu og vísindatónleikar með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands

18. febrúar flytur Sinfóníuhljómsveit Norðurlands tónverkið Pláneturnar eftir Gustav Holst. Fjallað verður á hressan og skemmtilegan hátt um reikistjörnurnar sjálfar milli verka. Fallegt ferðalag fyrir augu og eyru allrar fjölskyldunnar.

Nánari upplýsingar og miðakaup hér .

Febrúar - Stjörnuskoðun í Kerlingarfjöllum

Dagarnir 23.-25. febrúar verða tileinkaðir náttúruundrum á næturhimninum í Kerlingarfjöllum. Stórskemmtileg fræðsla um vetrarbrautir, vígahnetti, stjörnuþokur og önnur náttúruundur og töfrandi sögur af goðsögnum tengdum himingeimnum.

Þessa daga býðst gestum að bóka tveggja nátta ferð þar sem boðið verður upp á gistingu á nýja hótelinu auk sérstakrar stjörnuskoðunar undir leiðsögn Sævars. Á daginn bjóðum við gestum svo í afþreyingarleiðsögn úti í einstakri náttúrunni.

Nánari upplýsingar og bókun hér.

Apríl - Almyrkvi á sólu - Deildarmyrkvi frá Íslandi séð

Stærsti viðburðurinn á himni er án ef almyrkvinn á sólu sem gengur yfir Mexíkó, Bandaríkin og Kanada þann 8. apríl. Íslendingar staddir á þessum slóðum ættu sannarlega að fylgjast með honum. 

Frá Íslandi sést deildarmyrkvi. Hann hefst klukkan 18:49 og nær hámarki kl. 19:40 þegar tunglið hylur tæp 50% af skífu sólar. Myrkvanum lýkur kl. 20:29, skömmu fyrir sólsetur.

Myrkvinn er sá fyrsti gengur yfir Bandaríkin síðan í ágúst 2017. Undirritaður fylgdist grannt með honum og fjallaði um í þætti Nýjasta tækni og vísindi sem sýndur var á RÚV og sjá má hér undir.

September- Deildarmyrkvi á tungli

Aðfaranótt 18. september verður lítill deildarmyrkvi á tungli sjáanlegur frá Íslandi. Deildarmyrkvinn er reyndar á slæmum tíma því hann hefst kl. 02:13, nær hámarki kl. 02:44 og lýkur kl. 03:15. 

Þegar mest lætur hylur skuggi Jarðar aðeins 3,5% af skifu tunglsins. Verður þá sem tekinn hafi verið biti úr norðurhluta tunglsins.

September - Japanir rannsaka Fóbos og Deimos

Í september hyggjast Japanir senda af stað leiðangur til Mars-tunglanna Fóbosar og Deimosar. Leiðangurinn kallast MMX eða Martian Moon eXploration. Gervitunglið á að rannsaka uppruna tunglanna tveggja, hvort þau séu smástirni sem Mars fangaði eða hreinlega brot af Mars. 

Leiðangurinn stendur yfir í að minnsta kosti þrjú ár. Þá er fyrirhugað að lenda á yfirborði Fóbosar og flytja sýni heim til Jarðar.

Mmx-jaxa-fobos-mars

Október - Europa Clipper skotið á loft

Í október skýtur NASA á loft Europa Clipper gervitunglinu sem ætlað er að kanna einn forvitnilegasta stað sólkerfisins, Júpítertunglið Evrópu. Evrópa hefur skorpu úr ís en undir þykkri skelinni er að öllum líkindum saltur sjór. Europa Clipper á að varpa ljósi á hvort hafið á Evrópu gæti verið lífvænlegt.

Skotglugginn opnast 10. október og er opinn í 21 dag. Áætlað er að gervitunglið komið á áfangastað árið 2030 og fari nærri fimmtíu sinnum framhjá Evrópu.

Europa-clipper-jupiter

Október - Hera leggur af stað til Dídýmosar og Dímorfosar

Í október verður Hera gervitungli Geimvísindastofnunar Evrópu skotið á loft. Tveimur árum síðar á geimfarið að heimsækja smástirnakerfið Dídýmos og Dímorfos og kanna áhrifin sem árekstur DART geimfars NASA hafði á kerfið árið 2022 .

Hera-esa-smastirni