Kjúklingaþokan á ljósmynd frá 1,5 milljarðs pixla myndavél ESO

Sævar Helgi Bragason 21. des. 2023 Fréttir

Jólamynd ESO er af risavöxnu stjörnumyndunarskýi í 6500 ljósára fjarlægð frá Jörðu

  • Kjúklingaþokan á mynd VLT Survey Telescope

Að þessu sinni prýðir sjálf Kjúklingaþokan jólamynd Stjörnustöðvar Evrópulanda á suðurhveli (ESO). Myndin er glæsileg en hún var tekin með 1,5 milljarðs pixla myndavél VST sjónaukans í Chile. Í þokunni eru stjörnur að fæðast.

Hamfarir - Vísindalæsi

Þetta risavaxna stjörnumyndunarsvæði er í um 6500 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Mannfáknum. Nýmyndaðar stjörnur í henni gefa frá sér orkuríkt útfjólublátt ljós sem örvar vetnisgas í henni sem gefur þá frá sér bleikt ljós. 

Kjúklingaþokan er í raun nokkur svæði sem bera mismunandi skráarheiti. Bjartasta svæðið kallast IC 2948 og dregur þokan þetta sérkennilega nafn sitt af því. Sumir vilja nefnilega meina að það líkist kjúklingi á hlaupum. 

Á miðri mynd er björt stjarna sem kallast Lambda Centauri. Hún tilheyrir reyndar ekki þokunni heldur er fyrir tilviljun í sömu sjónlínu og þokan og mun nær okkur. Fyrir aftan hana sést gas- og rykstöpull sem kallast IC 2944. Ofarlega til hægri eru svo þokur sem kallast Gum 39 og 40 en við neðra hægra hornið er Gum 41.

Myndin var tekin með OmegaCAM á VLT Survey Telescope í Paranal-stjörnustöð ESO í Atacamaeyðimörkinni í Chile. Gögnunum var aflað fyrir verkefni sem kallast VPHAS+ og snýst um að skilja betur lífsferil stjarna. Myndin spannar svæði sem er 25 sinnum stærra en fullt tungl á himninum – 270 ljósár.

Frétt frá ESO