Milljón ljósmyndir afhjúpa stjörnuverksmiðjur

Sævar Helgi Bragason 11. maí 2023 Fréttir

Stjörnufræðingar hafa útbúið stærðarinnar innrauðan ljósmyndaatlas af fimm nálægum stjörnumyndunarsvæðum.

  • Eso2307a

Stjörnufræðingar sem notuðu VISTA sjónauka ESO í Chile hafa útbúið stærðarinnar innrauðan ljósmyndaatlas af fimm nálægum stjörnumyndunarsvæðum. Atlasinn var búinn til með því að púsla saman meira en einni milljón ljósmynda sem teknar voru yfir fimm ára tímabil.

„Á myndunum sjáum við daufustu ljóslindir, til dæmis stjörnur sem eru mun minni og daufari en sólin okkar og þar af leiðandi fyrirbæri sem aldrei hafa sést áður. Þetta hjálpar okkur að átta okkur betur á ferlinu sem breytir gasi og ryki í stjörnur,“ sagði Stefan Meingast, stjörnufræðingur við Vínarháskóla og umsjónarmaður rannsóknarinnar. Greint er frá henni í tímaritinu Astronomy & Astrophysics .

Ups_FB_cover

Stjörnur verða til þegar þyngdarkrafturinn kastar gas- og rykskýjum í kekki. Nákvæmlega hvernig það gerist liggur þó ekki fullkomlega ljóst fyrir og mörgum spurningum ósvarað: Hversu margar stjörnur fæðast úr skýjunum? Hversu efnismiklar eru þær? Hversu margar þeirra munu hafa reikistjörnur?

Til að afla svara við þessum spurningum beindi teymi Meingasts VISTA sjónauka ESO í Chile að fimm nálægum stjörnuverksmiðjum. VISTA er innrauður sjónauki og getur skyggnst djúpt inn í og í gegnum rykið á nýfæddu stjörnurnar sem þar eru faldar.

Verkefnið kallast VISIONS. Það snýst um að rannsaka stjörnumyndunarský í stjörnumerkjunum Óríon , Naðurvalda, Kamelljóninu, Suðurkórónunni og Úlfinum. Þessi svæði eru innan við 1500 ljósár í burtu og svo stór að þau ná að þekja stór svæði á himninum.

Sjónsvið VIRCAM myndavélarinnar í VISTA sjónaukanum er þrefalt breiðara en fulls tungls og hentar hún því vel til að rannsaka svæðin.

Stjörnufræðingarnir tóku meira en milljón ljósmyndir yfir meira en fimm ára tímabil. Myndunum var síðan skeytt saman í þær stóru myndir sem hér eru birtar. Á þeim sjást eru dökkir rykblettir, glóandi gasský, nýfæddar stjörnur og fjarlægar bakgrunnsstjörnur úr Vetrarbrautinni.

Sömu svæði voru ljósmynduð endurtekið og fengust því líka upplýsingar um tilfærslu stjarnanna. Með því má finna út hvernig þær yfirgefa hreiðrin sín. Það er alls ekki auðvelt verk því tilfærslan er sára-, sáralítil – álíka mikil og breidd mannshárs séð úr tíu kílómetra fjarlægð.

VISION-atlasinn heldur stjörnufræðingum við efnið um ókomin ár. VISION mun einnig leggja grunninn fyrir mælingar með sjónaukum sem nú eru í smíðum, eins og Extremely Large Telescope ESO.

L1688 í Naðurvalda

Eso2307a

L1688 er stjörnumyndunarsvæði í um 450 ljósára fjarlægð frá Jörðu í stjörnumerkinu Naðurvalda.

Lupus 2 í Úlfinum

Eso2307b

Lupus 2 er stjörnumyndunarsvæði í um 600 ljósára fjarlægð frá Jörðu í stjörnumerkinu Úlfinum.

Lupus 3 í Úlfinum

Eso2307c

Lupus 3 er stjörnumyndunarsvæði í um 600 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Úlfinum.

HH 909 A í Kamelljóninu

Eso2307d

Herbig-Haro 909 fyrirbærið er í um 600 ljósára fjarlægð frá Jörðu í stjörnumerkinu Kamelljóninu. Hubble hefur einnig fangað fyrirbærið á mynd .

IRAS 11051-7706 í Kamelljóninu

Eso2307e

Cha 1 eða IRAS 11051-7706 sameindaskýið er í 630 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Kamelljóninu. Webb-geimsjónaukinn hefur einnig tekið mynd af því.

Coronet þyrpingin í Suðurkórónunni

Eso2307f

Cornet stjörnuþyrpingin er í um 500 ljósára fjarlægð frá Jörðu í stjörnumerkinu Suðurkórónunni.