Leyndardómsfull þyrping

Sævar Helgi Bragason 05. sep. 2012 Fréttir

Messier 4, glæsileg kúluþyrping, prýðir þessa nýju mynd frá La Silla stjörnustöð ESO í Chile. Í henni hefur ein stjarnan sérkennilega og óvænta eiginleika.

  • Messier 4, kúluþyrping, Sporðdrekinn

Messier 4, glæsileg kúluþyrping, prýðir þessa nýju mynd frá La Silla stjörnustöð ESO í Chile. Þessi bolti úr tug þúsundum stjarna er ein nálægasta og mest rannsakaða kúluþyrping himins en nýlegar rannsóknir hafa sýnt, að ein af stjörnum hennar hefur sérkennilega og óvænta eiginleika og býr yfir leyndarmálinu á bak við eilífa æsku.

Um vetrarbrautina okkar sverma meira en 150 kúluþyrpingar sem allar urðu til í árdaga alheims (eso1141). Einna nálægust við jörðina er Messier 4 (einnig þekkt sem NGC 6121) í stjörnumerkinu Sporðdrekanum. Þessi bjarta þyrping sést vel í gegnum handsjónauka skammt frá rauðu risastjörnunni Antaresi en greina má stakar stjörnur í henni með litlum áhugamannasjónaukum.

Þessi nýja mynd af þyrpingunni var tekin með Wide Field Imager (WFI) myndavélinni á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO. Á henni sést aragrúi stjarna í þyrpingunni fyrir framan stjörnumprýddan bakgrunn vetrarbrautarinnar.

Stjörnufræðingar hafa rannsakað margar þessara stjarna með mælitækjum Very Large Telescope ESO. Með því að kljúfa ljós stjarnanna í liti sína, geta stjörnufræðingar fundið út efnasamsetningu þeirra og aldur.

Nýjar niðurstöður rannsókna á stjörnum Messier 4 hafa komið á óvart. Stjörnur kúluþyrpinga eru aldnar og innihalda þess vegna ekki mikið af þungum frumefnum [1]. Ein stjarnan í þyrpingunni reynist þó geyma miklu meira magn af liþíumi, sjaldgæfu léttu frumefni, en búist var við. Uppruni þessa liþíums er dularfullur. Alla jafna eyðileggst þetta frumefni hægt og bítandi á milljarða ára löngu æviskeiði stjörnunnar en svo virðist sem þessi stjarna geymi leyndarmálið á bak við eilífa æsku. Annað hvort hefur henni tekist að viðhalda upprunalega liþíuminu eða fundið leið til að auðga sig sjálf af nýju liþíumi.

Þessi mynd WFI er sýnir vel þyrpinguna sjálfa og svæðið í kringum hana. Önnur og öllu nákvæmari mynd af miðsvæðinu frá Hubble geimsjónauka NASA og ESA var mynd þessarar viku á vef Hubble.

Skýringar

[1] Flest frumefni þyngri en helíum verða til í stjörnum og dreifast um geiminn þegar stjörnunar deyja. Þannig auðgast miðgeimsefnið sem myndar byggingareiningar næstu kynslóða stjarna. Afleiðingin er sú, að mjög gamlar stjörnur eins og í kúluþyrpingum, sem urðu til áður en mikil auðgun hafði átt sér stað, innihalda minna af þungum frumefnum í samanburði við stjörnur eins og sólina sem mynduðust síðar.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1235.

Tengdar myndir

  • Messier 4, kúluþyrping, SporðdrekinnMessier 4, glæsileg kúluþyrping, prýðir þessa nýju mynd Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO. Þessi stóri bolti úr öldruðum stjörnum er ein nálægasta kúluþyrpingin við jörðina og er að finna í stjörnumerkinu Sporðdrekanum, skammt frá björtu rauðu stjörnunni Antaresi. Mynd: ESO
  • Messier 4, kúluþyrping, SporðdrekinnÞessi víðmynd sýnir kúluþyrpinguna Messier 4 (NGC 6121) í stjörnumerkinu Sporðdrekanum. Litmyndin var sett saman úr ljósmyndum Digitized Sky Survey 2 (DSS2). Litla kúluþyrpingin ofarlega til vinstri er NGC 6144. Hún er svipuð Messier 4 en meira en þrefalt lengra í burtu. Ofarlega til vinstri sést líka rauður bjarmi vetnis í tengdu stjörnumyndunarsvæði. Bjarta stjarnan ofarlega hægra megin er Sigma Scorpii. Mynd: ESO/Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin
  • Messier 4, kúluþyrping, SporðdrekinnÞessa glitrandi fallegu ljósmynd tók Hubble geimsjónauki NASA og ESA af stjörnum í miðju kúluþyrpingarinnar Messier 4.