Hubble skoðar aldna og undarlega kúluþyrpingu

Sævar Helgi Bragason 14. nóv. 2013 Fréttir

Hubblessjónauki NASA og ESA fangaði nýlega á mynd, skarpar en nokkru sinni fyrr, kúluþyrpinguna Messier 15.

  • Mynd Hubblessjónaukans af Messier 15

Hubblessjónauki NASA og ESA fangaði nýlega á mynd, skarpar en nokkru sinni fyrr, kúluþyrpinguna Messier 15, sverm ævagamalla stjarna sem hnita um miðju Vetrarbrautarinnar. Glitrandi þyrpingin geymir um 100.000 stjörnur og gæti falið sjaldgæfa gerð svarthola í miðju sinni.

Þessi litríka mynd er af stjörnum kúluþyrpingarinnar Messier 15 sem er í um 35.000 ljósára fjarlægð frá okkur í stjörnumerkinu Vængfáknum (Pegasusi). Þessi stjörnuskari er einn sá allra elsti sem við þekkjum [1], um 12 milljarða ára gamall.

Snarpheit blástirni og svalari gullstirni sveima saman um myndina. Þau þétta sig saman þegar nær dregur bjartri miðjunni. Messier 15 er ein þéttasta kúluþyrping sem þekkist og er mestur massi hennar í miðjunni.

Þetta glitrandi himnaglingur ber með sér leyndarmál. Stjörnufræðingar fundu árið 2002, með hjálp Hubbles, eitthvað myrkt og dult í miðju þess. Annað hvort er þar safn nifteindastjarna [2], eða meðalstórt svarthol. Af þessu tvennu þykir líklegra að Messier 15 hýsi svarthol, rétt eins og hin gríðarstóra kúluþyrping Mayall II.

Meðalstór svarthol myndast annað hvort við samruna nokkurra lítilla svarthola, eða við árekstur stórra stjarna í þéttum þyrpingum. Þriðji möguleikinn er sá, að þau hafi myndast stuttu eftir Miklahvell. Þessi svarthol eru nokkuð þyngri en algengari stjörnusvarthol (sem myndast við þyngdarhrun stjörnu) og risasvarthol [3] og gætu þannig sagt okkur nokkuð um þróun og vöxt svarthola í kúluþyrpingum eins og Messier 15 og jafnvel í vetrarbrautum.

Messier 15 hýsir líklega ekki aðeins svarthol, heldur er þar líka að finna hringþokuna Pease 1 [4], sem var fyrsta hringþokan sem fannst í kúluþyrpingu [5]. Þokan birtist sem bjart bláleitt fyrirbæri rétt vinstra megin við miðju þyrpingarinnar.

Myndin er sett saman úr athugunum frá Wide Field Camara 3 og Advanced Camera for Surveys, myndavélum Hubblessjónaukans. Þær eru teknar í útfjólubláu, innrauðu og sýnilegu ljósi.

Skýringar

[1] Kúluþyrping er hérumbil kúlulaga svermur stjarna sem hverfast um Vetrarbrautina. Vitað er um 150 slíkar þypringar á braut um Vetrarbrautin okkar og er Messier 15 þeirra á meðal. Sumar vetrarbrautir eiga þó fleiri þyrpingar en við. Nýlega fann Hubble um 160.000 kúluþyrpingar á sveimi um vetrarbrautaþypringuna Abell 1689 (heic1317). Kúluþyrpingar hýsa margar elstu stjarnanna í alheimi.

[2] Nifteindastjarna myndast við þyngdarhrun massamikillar stjörnu. Þær eru heitar og afar þéttar. Meðalmassinn er um tvöfaldur massi sólar, en þvermálið rétt rúmur tugu kílómetra.

[3] Svarthol sem verða til við þyngdarhrun stjörnu vega frá nokkrum sólmössum upp í nokkra tugi sólmassa. Risasvarthol vega hundruð þúsunda til milljarða sólmassa.

[4] Pease 1 er einnig nefnd PN Ku 648, eða Kürster 648.

[5] Síðan Pease 1 fannst, hafa aðeins þrjár aðrar kúluþyrpingar fundist sem hýsa hringþokur: Messier 22, NGC 6441 og Palomar 6. Þær eru svo fáar því hringþokur eru skammlíf fyrirbæri sem birtast seint á ævikvöldi lágmassa stjarna, sem eru ekki tíðar í kúluyrpingum.

Hubblessjónaukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni NASA og ESA.

Tengiliður

Ottó Elíasson
Stjörnufræðivefnum
Árósarútibú, Danmörku
Sími: 663 6867
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESA/Hubble heic1321

Tengdar myndir

  • Messier 15, kúluþyrping, stjörnuþyrpingÞessi litríka mynd er af stjörnum kúluþyrpingarinnar Messier 15, sem er í um 35.000 ljósára fjarlægð frá okkur í stjörnumerkinu Vængfáknum. Það er eitt af elstu fyrirbærunum sem við þekkjum, um 12 milljarða ára gamalt. Snarpheit blástirni og svalari gullstirni sveima saman um myndina. Þau þétta sig saman þegar nær dregur bjartri miðjunni. Messier 15 er ein hinna þéttbýlustu kúluþyrpinga og er mestur massi hennar í miðjunni. Mynd: NASA, ESA