Þyrilþoka eys stjörnum og gasskýjum

Sævar Helgi Bragason 04. mar. 2014 Fréttir

Hubblessjónaukinn hefur tekið mynd af vetrarbraut sem mjakast í gegnum vetrarbrautaþyrpingu og skilur um leið eftir sig slóð bjartra, blárra ráka

  • Þyrilþokan ESO 137-001 á mynd Hubble geimsjónaukans

Á þessari nýju mynd frá Hubble geimsjónauka NASA og ESA má sjá þyrilþokuna ESO 137-001 þar sem hún mjakast í gegnum hjarta vetrarbrautaþyrpingarinnar Abell 3627. Þyrpingin sundrar þyrilþokunni á þessari leið hennar, svo hún skilur eftir sig slóð bjartra, blárra ráka.

Hubble geimsjónauki NASA og ESA hefur beint sjónum sínum að ESO 137-001, viðkvæma og sérstaklega fallega þyrilvetrarbraut í stjörnumerkinu Suðurþríhyrningnum.

Á myndinni sést ekki aðeins vetrarbrautin sjálf og bakgrunnurinn í miklum smáatriðum, heldur líka bláar rákir sem virðast leka frá henni og birtast greinilega í útfjólubláu ljósi.

Rákirnar eru ungar, heitar stjörnur, umluktar gasskýjum sem rifna burt á ferðalagi vetrarbrautarinnar um geiminn. Þessi harkalega sundrun vetrarbrautarinnar er tilkomin vegna dragkrafts sem verkar á fyrirbæri á leið í gegnum vökva. Í þessu tilviki er „vökvinn“ ofurheitt gas sem lúrir í miðju vetrarbrautaþyrpinga. Krafturinn verkar á ekki ósvipaðan hátt og þegar maður reynir að ganga ofan í sundlaug.

Myndin er einnig til vitnis um aðra þætti þessa ferlis, til að mynda sveigt útlit þyrilskífunnar sem rekja má til krafta frá heitu gasinu. Dragkraftur þyrpingarinnar er sennilega nógu mikill til að sveigja ESO 137-001, en í þessu heljamikla reiptogi er þyngdarkraftur vetrarbrautarinnar nægur til að halda í megnið af rykinu, þótt út sleppi einhverjar brúnleitar rykrákir.

Rannsóknir á þessu ferli hjálpar stjörnufræðingum að skilja þróun vetrarbrauta. Sem dæmi mun ferlið leiða til þess að mjög lítið verður eftir af köldu gasi í þessari vetrarbraut, gasi sem er nauðsynlegt til að nýjar stjörnur geti roðið til í henni. Fyrir vikið verður vetrarbrautin svo til ófær um að mynda nýjar stjörnur.

ESO 137-001 er hluta af Hornmátsþyrpingunni (Norma cluster), sem er vetrarbrautaþyrping nærri miðju Mikladraga, svæðis í geimnum sem geymir svo mikinn massa og hefur því slíkt þyngdartog, að það dregur heilu vetrarbrautaþyrpingarnar til sín. Svæðið er í um 200 milljón ljósára fjarlægð frá Vetrarbrautinni okkar, sem ásamt Grenndarþyrpingunni færist í átt að þessu svæði. Hubble myndaði líka nágranna ESO 137-001, ESO 137-002 þaðan sem einnig stafa rákir af glóheitu gasi.

Þrátt fyrir að vera tiltölulega nálægt á stjarnfræðilegan mælikvarða, er enginn hægðarleikur að ná almennilegri mynd af Hornmátsþyrpingunni. Frá Jörðu séð er þyrpingin nálægt fleti okkar vetrarbrautar og þar með byrgir þykk þoka geimryks sýn. En Hubble tekur þessari áskorun og notar til þess Wide Field Camera 3 (WFC3) myndavélina.

Líkt og með flestar myndir Hubbles er hún ekki aðeins falleg, heldur segir heilmikla sögu um harkalegt umhverfið í hjarta vetrarbrautaþyrpinga, sem mótar vetrarbrautir eins og ESO 137-001.

Frekari upplýsingar

Hubblessjónaukinn er alþjóðlegt samstarfsverkefni NASA og ESA.

Gögnin koma úr verkefni HST 12377, sem Ming Sun leiddi.

Mynd: NASA, ESA. Þakkir: Ming Sun (UAH), og Serge Meunier

Tengiliður

Ottó Elíasson
Stjörnufræðivefurnn
Tölvupóstur: [email protected]

Tengdar myndir

  • ESO 137-001Ljósmynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA af þyrilþokunni ESO 137-001 sem tilheyrir Hornmátsþyrpingunni. Þegar vetrarbrautin ferðast í gegnum þyrpinguna, rífur heitt gas í þyrpingunni stjörnur og gasþokur út úr vetrarbrautinni sem mynda bjartar, bláar rákir.
  • ESO 137-001Samsett ljósmynd Hubble geimsjónaukans og Chandra röntgengeimsjónaukans af ESO 137-001. Blái halinn er heitt gas sem liggur frá vetrarbrautinni og kemur vel fram í röntgenljósi.