Hubble tekur nýja mynd af Stólpum sköpunarinnar

Sævar Helgi Bragason 06. jan. 2015 Fréttir

Hubblessjónauk hefur tekið nýja og glæsilega mynd af Stólpum sköpunarinnar í Arnarþokunni. Stjörnur eru að verða til innan í þessum stóru gas- og rykstólpum.

  • Stólpar sköpunarinnar í Arnarþokunni (Messier 16). Mynd: NASA/ESA og Hubble

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur tekið margar glæsilegar myndir af alheiminum. Ein mynd er þó frægari en aðrar: Stólpar sköpunarinnar í Arnarþokunni. Árið 1995 tók Hubble mynd sem sýndi tignarleg smáatriði í þessum risavöxnu gas- og rykstólpum en nú, 20 árum síðar, hefur sjónaukinn náð enn glæsilegri mynd af þessu fallega skýi.

Gas- og rykstólparnir þrír sem sjást á myndinni eru hlutar af Arnarþokunni eða Messier 16 sem er í um 6500 ljósára fjarlægð frá Jörðinni.

Myndanir sem þessar eru algengar í stjörnumyndunarsvæðum en stólparnir í Messier 16 eru myndrænastir. Mynd Hubbles af stólpunum frá árinu 1995 hefur þannig birst í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, á bolum og sængurfötum og jafnvel frímerkjum.

Hubble hefur nú beint sjónum sínum að stólpunum frægu á ný. Þessa glæsilegu mynd af litríkum, glóandi gasskýjum, dökkleitum rykslæðum og ryðrauðum „fílsrana“ var tekin með Wide Field Camera 3 sem komið var fyrir í sjónaukanum árið 2009. Ljósmyndin sýnir sýnilegt ljós og er enn skarpari og víðari en fyrri myndin fræga.

Stólpar sköpunarinnar í Arnarþokunni (Messier 16). Mynd: NASA/ESA og Hubble
Samanburður á myndum Hubbles af Stólpum sköpunarinnar í Arnarþokunni frá árunum 2015 og 1995. Myndir: WFC3: NASA, ESA/Hubble og Hubble Heritage Team. WFPC2:  NASA, ESA/Hubble, STScI, J. Hester og P. Scowen (Arizona State University)

Hubble tók líka mynd af stólpunum í innrauðu ljósi. Innrautt ljós berst í gegnum rykið að mestu leyti og gefur því öllu meira framandi sýn á stólpana. Þeir breytast í skuggaslæður fyrir framan fjarlægar stjörnur í bakgrunni.

Á innrauðu myndinni sjást nokkurs konar stjörnufóstur að mótast innan í stólpunum sjálfum. Sólin okkar varð hugsanlega til á sambærilegan hátt fyrir um 4,6 milljörðum ára.

Innrauð mynd af Stólpum sköpunarinnar í Arnarþokunni (Messier 16). Mynd: NASA/ESA og Hubble
Stólpar sköpunarinnar í innrauðu ljósi. Mynd: NASA, ESA/Hubble og Hubble Heritage Team

Stólparnir eru þó ekki aðeins skapandi, heldur sýnir nýja myndin að þeir eru líka eyðileggjandi. Gas- og ryk í stólpunum hitnar og skrælnar vegna orkuríks ljóss frá ungu stjörnunum innan í þeim. Stólparnir veðrast líka af völdum öflugra stjörnuvinda frá massamiklum stjörnum í nágrenninu. Bláa móðan eða mistrið í kringum stólpanna á myndinni í sýnilegu ljósi er efni sem ungu, björtu stjörnurnar hafa hitað og er að gufa upp.

Stólpar sköpunarinnar í Arnarþokunni (Messier 16). Mynd: NASA/ESA og Hubble
Samanburður á Stólpum sköpunarinnar í sýnilegu ljósi (vinstri) og innrauðu ljósi (hægri). Mynd: NASA, ESA/Hubble and the Hubble Heritage Team

Stjörnufræðingar geta notað nýju myndina til að rannsaka hvernig stólparnir breytast með tímanum. Innrauða myndin sýnir að ástæða þess a stólparnir eru til yfir höfuð, er vegna þess að topparnir eru mjög þéttir og skýla gasinu undir. Gasið milli stólpanna hefur fokið burt fyrir löngu vegna vinda frá nálægri stjörnuþyrpingu.

Efst á stólpnum vinstra megin sést að gashnoðri hefur hitnað og er að hraðri leið burt frá honum. Þetta sýnir vel hve ofsafengin stjörnumyndunarsvæði eru.

Efnismiklu stjörnurnar eru hægt og rólega að brjóta niður stólpana. Um leið eru þær líka ástæða þess að við sjáum þá yfir höfuð. Útfjólublátt ljós sem þær gefa frá sér lýsir upp skýið svo efni eins og súrefni, vetni og brennisteinn glóa.

Tengt efni

- Sævar Helgi Bragason