Sjáðu bestu loftsteinadrífu ársins 13. og 14. desember

Sævar Helgi Bragason 02. des. 2015 Fréttir

Ef veður leyfir sunnudagskvöldið 13. desember og mánudagskvöldið 14. desember skaltu horfa til himins. Þessi kvöld verður loftsteinadrífan Geminítar (e. Geminids) í hámarki. Geminítar eru oft besta loftsteinadrífa ársins.

  • Geminítar, Vestmannaeyjar, stjörnuhrap, loftsteinahrap

Í ár má búast við því að sjá allt að 120 stjörnuhröp á klukkustund þegar best lætur. Þú gætir sem sagt séð alla vega eitt stjörnuhrap á mínútu, jafnvel fleiri. Öll virðast stjörnuhröpin stefna úr stjörnumerkinu Tvíburunum (Gemini) og dregur drífan nafn sitt af því.

Vísindabók Villa - Geimurinn og geimferðir eftir Vilhelm Anton Jónsson og Sævar Helga Bragason

Dularfullir Geminítar

Flestar loftsteinadrífur má rekja til ísagna sem hafa losnað af halastjörnum á leið þeirra í kringum sólina.

En Geminítar eru harla óvenjulegir. Þá má nefnilega rekja til smástirnis — ekki halastjörnu.

Smástirnið nefnist 3200 Phaethon og er aðeins 5 km að stærð. Ef til vill hefur efni losnað af því þegar það gerðist nærgöngult við sólina. Satt að segja er það þó ekki vitað.

Hugsanlega er 3200 Phaethon lítið brot úr smástirninu Pallas sem er hundrað sinnum stærra og eitt stærsta smástirnið í smástirnabeltinu.

Af öllum þeim efnisstraumum sem Jörðin plægir sig í gegnum ár hvert, er Geminíta slóðin einna þéttust. Þessi drífa svíkur þess vegna sjaldnast.

Stjörnuhröpin sem þú sérð verða til þegar agnir á stærð við sandkorn eða litla steina falla í gegnum lofthjúp jarðar. Agnirnar ferðast á um 35 km hraða á sekúndu að meðaltali, svo þegar ein þeirra rekst á lofthjúpinn gufar hún hratt upp vegna núnings og skilur eftir sig ljósrák.

Hvert á að horfa?

Aðstæður til að fylgjast með Geminítum þetta árið eru góðar því tunglið er vaxandi sigð, aðeins nokkurra daga gamalt og truflar þess vegna ekkert.

Ekki er þörf á neinum sérstökum búnaði til að fylgjast með drífunni, aðeins augu (þótt vissulega gæti verið skemmtilegt að beina stjörnusjónauka að Júpíter og fleiri fyrirbærum sem eru á lofti um nóttina).

Komdu þér vel fyrir á dimmum stað, fjarri borgar- og bæjarljósunum, sunnudagskvöldið 13. desember (eða mánudagskvöldið 14. desember) og horfðu í austurátt (síðar suðaustur og suður).

Notaðu stjörnukortið hér undir til að finna Kastor og Pollux, björtustu stjörnurnar í tvíburamerkinu en geislapunktur drífunnar er rétt fyrir ofan Kastor.

Stjörnumerkið Tvíburarnir
Stjörnuhimininn að sunnudagskvöldið 13. desember. Horfðu í þessa átt til að fylgjast með Geminítum.

Tvíburamerkið er á lofti fram á morgun. 

Láttu fara vel um þig og horfðu til himins.

Prófaðu að telja stjörnuhröpin og láttu okkur svo vita (t.d. á Facebook) hvað þú sást mörg.

Tengt efni

Stjörnuhimininn í desember 2015

- Sævar Helgi Bragason