Sjáðu halastjörnuna Hartley 2

Geimfar sækir sömu halastjörnu heim 4. nóvember

Sævar Helgi Bragason 04. okt. 2010 Fréttir

Halastjarnan Hartley 2 er á kvöldhimninum þessa dagana og er sýnileg með handsjónauka og stjörnusjónauka. Í nóvember heimsækir geimfar sömu halastjörnu.

  • Halastjarnan Hartley 2 og Pacman þokan. Mynd: Alan Dyer (birt með leyfi höfundar)

Halastjarnan Hartley 2 er á kvöldhimninum þessa dagana. Hún sést naumlega með berum augum við mjög góðar aðstæður fjarri allri ljósmengun en betur með handsjónauka og stjörnusjónauka, ef þú veist hvert á að horfa. Halastjarnan verður næst jörðu þann 20. október og björtust um svipað leyti. Þann 4. nóvember flýgur svo Deep Impact/EPOXI geimfarið framhjá halastjörnunni í innan við 1.000 km fjarlægð.

Halastjarnan Hartley 2 fannst 16. mars 1986 á ljósmynd sem tekin var með 1,2 metra breiðum sjónauka í Siding Spring í Ástralíu. Stjörnufræðingurinn Malcolm Hartley tók þá eftir mjög daufri og agnarsmárri ljósrák á ljósmyndinni og sá hann að þar færi halastjarna. Frekari rannsóknir leiddu í ljós að um skammferðarhalastjörnu var að ræða með rúmlega 6 ára umferðartíma. Þetta var önnur halastjarnan sem Hartley fann upp á eigin spýtur og hlaut hún því nafnið Hartley 2.

Halastjarnan er talin rétt rúmlega einn kílómetri í þvermál. Þegar braut hennar var könnuð nánar kom í ljós hún hafði í þrígang á 20. öld (árin 1947, 1971 og 1982) gerst svo nærgöngul Júpíter að braut hennar breyttist og færðist nær sólinni. Áður var hún fjarlægari og svo dauf að hún fannst ekki fyrr en árið 1986. Hartley 2 sást næst árið 1991 og svo aftur árið 1997.

Snemma í september færðist Hartley 2 að norður á bóginn inn í stjörnumerkið Andrómedu og fór birta hennar smám saman vaxandi. Í upphafi október var hún fáeinar gráður sunnan stjörnunnar alfa í Kassíópeiu, hátt í norðaustri.

Kort af ferli Hartle 2 næstu daga. Kort: Sky & Telescope
Kort sem sýnir feril halastjörnunnar Hartley 2 fyrstu daga október. Betra kort til útprentunar er að finna í Stjörnukorti mánaðarins. Kort: Sky & Telescope og Stjörnufræðivefurinn.

Aðfaranótt 7. október verður halastjarnan innan við 1° suður af Tvíklasanum í Perseusi, þá af birtustigi +5 eða +6, svo hana má greina með berum augum. Birtustig þyrpinganna tveggja í Perseusi eru +4,3 og +4,4 svo hér gefst áhugafólki um stjörnuljósmyndum ágætt tækifæri til að mynda halastjörnuna og þyrpingarnar.

Þann 20. október verður Hartley 2 næst jörðu, þá í aðeins um 18 milljón km fjarlægð, rétt rúmri viku fyrir sólnánd (þegar hún er næst sólu) sem er 28. október. Halastjarnan verður þá sunnan stjörnunnar Kapellu í Ökumanninum, rétt sýnileg með berum augum við góðar aðstæður fjarri allri ljósmengun. Auðveldara er að koma auga á hana með handsjónauka eða stjörnusjónauka. Í gegnum sjónauka er halastjarnan þokublettur með móðukenndan hjúp. Í nóvember fjarlægist halastjarnan bæði jörð og sól og dofnar hægt og bítandi. Hún sést ekki aftur fyrr en árið 2017. Á Stjörnukorti mánaðarins má finna staðsetningu halastjörnunnar.

Stjörnuáhugamenn eru ekki þeir einu sem hlakka til þess að sjá Hartley 2. Þann 4. nóvember næstkomandi flýgur Deep Impact/EPOXI geimfar NASA framhjá halastjörnunni í innan við 1.000 km fjarlægð. Árið 2005 heimsótti Deep Impact halastjörnuna Tempel 1. Með í för var lítið koparskeyti sem rakst á halastjörnuna og olli mikilli flugeldasýningu. Deep Impact var enn í góðu ástandi eftir að hafa heimsótt Tempel 1 og var því stefnt að halastjörnunni 85P/Boethin. Á leiðinni hvarf halastjarnan en svo virðist sem hún hafi tvístrast. Því var stefnan tekin á Hartley 2 í staðinn.

Hartley 2 er að öllum líkindum harla ólík Tempel 1. Hún er smærri en sennilega virkari en Tempel 1. Enginn árekstur er fyrirhugaður nú en samanburður á þessum halastjörnum mun án efa kenna vísindamönnum heilmikið.

Skýringar

Myndina af halastjörnunni tók Alan Dyer aðfaranótt föstudags 30. október þegar hún var næst Pacman þokunni, NGC 281, í Kassíópeiu. Myndin er sett saman úr fjórum sex mínútna ljósmyndum með Canon 5D MkII (ISO 1600) á A&M 105mm lithreinum linsusjónauka með Borg reducer/flattener við f/4,8 og Celestron NexGuide autoguider.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness

Tölvupóstfang: saevar[hjá]stjornuskodun.is

Sími: 896-1984

Sverrir Guðmundsson
Ritari Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness

Tölvupóstfang: sverrirstjarna[hjá]gmail.com

Þetta er fréttatilkynning Stjörnufræðivefsins stj1005