Gleðileg jól og farsælt komandi ár

Sævar Helgi Bragason 22. des. 2010 Fréttir

Stjörnufræðivefurinn óskar lesendum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

  • eso1031ab

Stjörnufræðivefurinn óskar lesendum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Við þökkum kærlega fyrir frábærar viðtökur á árinu sem er að líða og lofum að standa okkur enn betur á næsta ári. Hér á eftir er stuttur annáll þar sem það markverðasta sem gerðist á árinu er rifjað upp.

Stjörnufræðivefurinn hefur haft í nógu að snúast á árinu sem er að líða. Í haust tókum við í notkun nýjan vef sem Hugsmiðjan hafði veg og vanda að en fyrirtækið var svo höfðinglegt að gefa vinnu sína og notkun á vefkerfinu Eplica. Fjöldi nýrra greina hafa bæst við og hefur aðsóknin á vefinn aukist töluvert. Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, opnaði vefinn við athöfn í Setbergsskóla (stj1002).

Á sama tíma hrundum við af stað okkar stærsta verkefni til þessa: Að færa öllum skólum á Íslandi stjörnusjónauka að gjöf (stj1001). Í vetur höfum við heimsótt yfir 150 skóla víðsvegar um landið og afhent persónulega tengiliðum okkar í skólunum sjónaukann. Einnig höfum við kennt yfir 50 kennurum að nota sjónaukann á sérstökum stjörnufræðinámskeiðum sem fram fóru í haust.

Árið 2010 hófum við gæfuríkt samstarf við Stjörnustöð Evrópulanda (ESO) sem er ein öflugasta stjörnustöð heims. Í þessu samstarfi þýðum við vikulega yfir á íslensku fréttir frá ESO um nýjustu niðurstöður evrópskra stjarnvísinda og erum tengiliðir þeirra hér á landi.

Á árinu hafa margar stórmerkar uppgötvanir verið gerðar með sjónaukum ESO. Með HARPS litrófsritanum á 3,6 metra sjónauka ESO í La Silla í Chile fundu stjörnufræðingar allt að sjö reikistjörnur á braut um stjörnu sem líkist sólinni okkar (eso1035). Fyrir skömmu fann svo hópur evrópskra stjarnvísindamanna fjarreikistjörnu í kringum stjörnu sem barst inn í Vetrarbrautina okkar úr annarri vetrarbraut (eso1045). Með Very Large Telescope ESO í Paranal-stjörnustöðinni í Atacamaeyðimörkinni í Chile tóku stjörnufræðingar litróf fjarreikistjörnu í fyrsta sinn (eso1002) og skyggndust inn í lofthjúp risajarðar (eso1047).

Nokkra athygli vakti þegar stjörnufræðingar uppgötvuðu massamestu stjörnu sem vitað er um. Þessi stjarna er líklega um 265 sinnum massameiri en sólin en upphafsmassi hennar var líklega um 320 sólmassar (eso1030).

Stjörnufræðingar horfðu enn lengra út í alheiminn á árinu. Með Very Large Telescope tókst þeim að greina fjarlægasta fyrirbæri sem sést hefur í alheiminum hingað til. Þetta er vetrarbraut sem sést eins og hún leit út aðeins 600 milljón árum eftir Miklahvell, rétt eftir að hún braust út úr þokunni sem umlék vetrarbrautir í árdaga alheims (eso1041).

Frá því í september 2009 höfum við gefið út stjörnukort mánaðarins fyrir Ísland (og fyrir útlönd á sumrin). Með kortinu hefur fylgja upplýsingar um hvað er að gerast í mánuðinum og leiðarvísir um himinninn fyrir byrjendur í stjörnuskoðun. Kortið hefur verið mikið notað og nýst við kennslu í skólum landsins.

Sumarið 2008 þýddu tveir íslenskir áhugamenn stjörnufræðiforritið Stellarium. Lengi vel voru vandræði með birtingu íslenskra bókstafa en í ágúst kom út ný útgáfa af forritinu þar sem búið var að lagfæra bókstafina. Sett var upp sérstök vefsíða (stellarium.astro.is) fyrir forritið og það auglýst svo vel að nú hafa yfir 2000 notendur hlaðið niður forritinu sem virkar bæði á PC og Makka.

Á vetrarsólstöðum, stysta degi ársins, buðum við gestum að fylgjast með almyrkva á tungli (stj1014) við Útvarpshúsið í Efstaleiti. Viðburðurinn var afar vel sóttur en rúmlega 300 manns mættu og fengu að sjá tunglið, Venus og Satúrnus í gegnum stjörnusjónauka félagsmanna úr Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness.

Með hátíðarkveðjum

Sævar Helgi Bragason
Sverrir Guðmundsson
Kári Helgason
Ottó Elíasson

Tryggvi Kristmar Tryggvason