Stjörnufræðingar finna fyrstu vísbendingarnar um vatn í TRAPPIST-1 sólkerfinu

Sævar Helgi Bragason 31. ágú. 2017 Fréttir

Stjörnufræðingar sem notuðu Hubble geimsjónauka NASA og ESA hafa fundið fyrstu vísbendingar um vatn við reikistjörnurnar sjö í TRAPPIST-1 sólkerfinu.

  • TRAPPIST-1 sólkerfið

Stjörnufræðingar sem notuðu Hubble geimsjónauka NASA og ESA hafa fundið fyrstu vísbendingar um vatn við reikistjörnurnar sjö í TRAPPIST-1 sólkerfinu. Þótt ekki sé enn hægt að segja til um hvort fljótandi vatn leynist á yfirborðum reikistjarnanna, styrkja niðurstöður mælinganna möguleikann á að reikistjörnurnar gætu verið lífvænlegar.

TRAPPIST-1 er köld og dauf, rauð dvergstjarna, aðeins 7,5% af massa sólar, í um 40 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Vatnsberanum .

Árið 2016 fundu evrópskir stjörnufræðingar þrjár reikistjörnur í kringum stjörnuna og fjórar til viðbótar ári síðar.

Allar eru þær bergreikistjörnur á stærð við Jörðina og þar af eru þrjár innan lífbeltisins — þess svæðis í sólkerfi þar sem fljótandi vatn gæti verið stöðugt á yfirborði ef aðstæður leyfa.

Hópur stjörnufræðinga notaði Hubble geimsjónauka NASA og ESA til að mæla útfjólublátt ljós frá reikistjörnurnum í sólkerfinu.

Útfjólublátt ljós klýfur vatnsgufu úr lofthjúpum reikistjarnanna í vetni og súrefni.

Vetnið er létt og streymir auðveldlega út í geiminn, sér í lagi þegar lofthjúpar reikistjarnanna þenjast út og hitna þegar þeir verða fyrir orkuríkara útfjólubláu ljósi og röntgengeislun.

Vetnismagnið sem streymir út í geiminn bendir til þess að reikistjörnurnar hafi allar glatað umtalsverðu vatni í gegnum tíðina, sér í lagi innstu reikistjörnurnar tvær, TRAPPIST-1b og TRAPPIST-1b sem verða fyrir mestri geislun.

Niðurstöður mælinganna benda til þess að útstreymi lofthjúpa leiki mikilvægt hlutverk í þróun reikistjarnanna.

Innstu reikistjörnurnar tvær gætu hafa misst sem jafngildir tuttugu jarðarhöfum síðustu átta milljarða ára.

Plánetur e, f og g, sem eru í lífbeltinu, ættu að hafa glatað mun minna af vatni svo hugsanlegt er að enn sé eitthvað eftir á yfirborði þeirra.