„Ofurmáni“ 3. desember 2017

Sævar Helgi Bragason 03. des. 2017 Fréttir

Sunnudaginn 3. desember 2017 kl. 15:47 — verður tunglið fullt. Daginn eftir — mánudaginn 4. desember kl 08:42 — verður tunglið næst Jörðu. Fulla tunglð 3. desember er því nálægasta fulla tungl ársins 2017 en nálægasta fulla tungl ársins er stundum kallað „ofurmáni“

  • Samanburdur

Sunnudaginn 3. desember 2017 kl. 15:47 — verður tunglið fullt. Daginn eftir — mánudaginn 4. desember kl 08:42 — verður tunglið næst Jörðu. Fulla tunglð 3. desember er því nálægasta fulla tungl ársins 2017, 357.987 km frá miðju Jarðar. Nálægasta fulla tungl ársins er stundum kallað „ofurmáni“ og er þetta eini „ofurmáni“ ársins 2017.  (Sjá einnig Tunglið í dag )

828x315_facebookhaus_Geimverur2

Fulla desembertunglið er stundum kallað Frostmáninn vegna kuldans sem gjarnan fylgir desembermánuði. Í desember klifrar Máninn álíka hátt á himinhvolfið og sólin í júní. Í júní er svo tunglið álíka lágt á lofti á næturnar og sólin er á daginn í desember.

Þetta kvöld er tunglið í Nautsmerkinu , skammt vestan við (vinstra megin frá okkur séð) rauðu risastjörnuna Aldebaran, björtustu stjörnu nautsins. Austan við hana er lítil þyrping stjarna, Sjöstirnið . Prófaðu að skoða hana með handsjónauka.

Af hverju er tunglið mislangt frá Jörðu?

Tunglið er á sporöskjulaga braut um Jörðina. Fyrir vikið er tunglið mislangt frá Jörðinni. Fjarlægðin frá miðju Jarðar að miðju tunglsins sveiflast því um 356.355 til 370.399 km við jarðnánd en frá 404.042 til 406.725 km við jarðfirrð. Ástæðan fyrir flöktinu er sú að sólin togar í sporöskjulaga braut tunglsins og aflagar hana örlítið.

Vegna þessarar sveiflu er fullt tungl ekki alltaf jafnlangt frá Jörðinni. Fjarlægasta og minnsta fulla tungl 21. aldar verður kl. 07:25 hinn 12. desember 2061. Þá verður tunglið 406.709 km frá Jörðinni.

Nálægasta fulla tungl 21. aldar verður 6. desember 2052. Tunglið verður þá 356.429 km í burtu — heilum 1558 kílómetrum nær okkur en nú 3. desember 2017.

Hvað eru „ofurmánar“?

Þegar fullt tungl ber upp á sama tíma og tunglið er við jarðnánd — þegar það er innan við 90% af minnstu fjarlægð frá Jörðinni — verður það sem kallast á fræðimáli „okstaða við jarðnánd“. Það er ekkert sérstaklega þjált svo í daglegu tali hefur verið talað um „ofurmána“. Sé þessi skilgreining notuð þarf tunglið að vera í innan við 367.607 km fjarlægð frá miðju Jarðar til að teljast „ofurmáni“.

„Ofurmánar endurtaka sig á rétt um það bil árs fresti og koma þá þrír til fjórir „ofurmánar“ í röð af 12-13 mögulegum fullum tunglum. Í ár er fulla tunglið 3. desember eini „ofurmáni“ ársins 2017 en fyrstu tvö fullu tungl ársins 2018 — 2. janúar og 31. janúar — verða „ofurmánar“.

Næstu þrír „ofurmánar“ þar á eftir verða allir í byrjun árs 2019: 21. janúar, 19. febrúar og 21. mars.

Full tungl. Mynd: Sævar Helgi Bragson/Stjörnufræðivefurinn

Sést munur á „ofurmánum“ og venjulegum fullum tunglum?

Nei.

Þegar tunglið er næst Jörðu er það stærst á himni frá Jörðu séð og aðeins bjartara en að meðaltali. „Ofurmáni“ er 7% breiðari og 15% bjartari en meðaltungl. Stærsta fulla tungl ársins er aftur 14% stærra og 30% bjartara en minnsta fulla tungl ársins, sem í ár bar upp 9. júní. Þá var tunglið næstum 50.000 km lengra í burtu en nú eða 406.268 km.

Munurinn er samt vart sjáanlegur. Munurinn á minnstu og stærstu fullu tunglum ársins er svipaður og munurinn á 15 og 16 tommu pizzum. Myndir þú kalla 16 tommu pizzu „ofurpizzu“? „Ofurmánar“ hafa heldur engin sérstök áhrif á Jörðina, menn eða önnur dýr. 

Samanburdur

Af hverju virkar fullt tungl svona stórt við sjóndeildarhringinn?

Fullt tungl rís á sama tíma og sólin sest. Þegar tunglið skríður upp á himinninn í norðaustri við sólsetur á sunnudaginn kl. 16:39 og mánudaginn kl. 17:17 mun það virka óvenju stórt lágt á himninum. Ástæðan er skynvilla. Tunglið virkar stærra við sjóndeildarhringinn en það í raun og veru er vegna þess hvernig við skynjum lögun himinhvelfingarinnar.

Þú getur sannreynt það sjálf(ur) með því að beygja þig og horfa á það á hvolfi. Hvað gerist? Tunglið minnkar! Reistu þig við og tunglið stækkar.

Raunar er tunglið örlítið smærra þegar það er við sjóndeildarhringinn en þegar það er hæst í suðri. Þegar tunglið er við sjóndeildarhringinn horfum við eftir radíus Jarðar og er stærð þess þá 1,5% minni en þegar tunglið er í suðri og hæst á lofti erum við rúmlega 6000 km nær því. Já, Jörðin er í alvöru hnöttótt!

Tunglid-vid-sjondeildarhringinn-potw1023a

Þrettán full og tvö „blá“ tungl árið 2018

Árið 2018 ber fyrsta tungl ársins upp 2. janúar. Fyrir vikið verða þrettán full tungl árið 2018. Þrátt fyrir það verður ekkert fullt tungl í febrúar. Tunglið verður tvisvar fullt í janúar (2. og 31., bæði „ofurmánar“) og mars (2. og 31.). Þrettánda fulla tungl ársins 2018 verður 22. desember.

Þegar tvö full tungl ber upp í sama mánuði er seinna fulla tunglið stofnum kallað blátt tungl, þótt það hafi ekkert með lit þessa að gera. Árið 2018 verða þar af leiðandi tvö „blá tungl“, 31. janúar og 31 mars. Á bláa tunglinu 31. janúar 2018 verður einnig tunglmyrkvi en sá myrkvi sést því miður ekki frá Íslandi.

Tunglið er æði! Þótt ekkert sé sérstakt við „ofurmánann“ 3. desember er samt um að gera að horfa til hans. Tunglið er gullfallegt og stórmerkilegt. Það er eini hnötturinn sem menn hafa heimsótt utan Jarðar og tilurð þess ástæðan fyrir því að við þurfum að skafa bílana á veturna. Við Ingibjörg Fríða fjölluðum vítt og breytt um tunglið í útvarpi KrakkaRÚV en hægt er að heyra þættina hér og hér.

Horfið til himins!

Lærðu meira

Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskyldunaÍ bókinni Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna er fjallað ítarlega um tunglið og hollráð veitt um hvað hægt er að sjá á því.

Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna fjallar um undrin sem sjá má á næturhimninum, frá sólsetri til sólarupprásar. Greint er frá því helsta sem sést með berum augum frá Íslandi, allt frá næturregnbogum og norðurljósum til gervitungla og stjörnuhrapa, að himintunglunum ógleymdum.

Sagt er frá tunglinu, sólinni og reikistjörnunum og hvernig best er að skoða þessa nágranna okkar í sólkerfinu. Ítarlega er fjallað um stjörnuhimininn og yfir fimmtíu fyrirbæri sem auðvelt er að finna, ýmist með handsjónauka, litlum stjörnukíki eða kröftugum stjörnusjónauka. Bókin geymir að auki fjölda glæsilegra mynda og vönduð stjörnukort.