Allir tíu ára grunnskólanemar fá stjörnukort að gjöf

Sævar Helgi Bragason 17. nóv. 2011 Fréttir

Stjörnuskoðunarfélagið og Stjörnufræðivefurinn hafa ákveðið að færa öllum tíu ára grunnskólanemendum og kennurum þeirra veglegt stjörnukort að gjöf.

  • Nemendur í Mýrarhúsaskóla fá stjörnukort. Mynd: Sverrir Guðmundsson

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn hafa ákveðið að færa öllum tíu ára grunnskólanemendum og kennurum þeirra veglegt stjörnukort að gjöf. Kortið sýnir stjörnuhimininn yfir Íslandi að vori og hausti og er góð viðbót við náttúrufræðikennslu í grunnskólum. Fyrstu kortin voru afhent nemendum í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi í dag.

Gjöfin er hugsuð sem framhald af stjörnufræðiátakinu frá því í fyrravetur þegar Stjörnufræðivefurinn, Stjörnuskoðunarfélagið og Stjarnvísindafélag Íslands gáfu Galíleósjónauka í alla grunn- og framhaldsskóla á Íslandi (stj1106). Stjörnukortin sýna himininn á kvöldin fyrir og eftir áramót. Þau eru mjög einföld í notkun [1] og munu vonandi hvetja nemendur og foreldra til þess að kíkja út í stjörnuskoðun þegar tækifæri gefst.

„Stjörnufræðikennsla er einn af lykilþáttum í kennslu um náttúrufræði og með því að gefa nemendum og kennurum stjörnukort viljum við hvetja þá enn frekar til dáða“, segir Sverrir Guðmundsson, ritari Stjörnuskoðunarfélagsins og einn af umsjónarmönnum Stjörnufræðivefsins. „Þetta er heilmikið átak fyrir áhugamannafélag sem er með einungis 300 meðlimi en ef vel tekst til þá munum við gera þetta aftur á næsta ári.“

Stjörnuskoðunarfélagið og Stjörnufræðivefurinn hlutu verðlaun fyrir framúrskarandi vísindamiðlun frá Rannís á Vísindavöku í september síðastliðinn. „Það lá beint við að nýta verðlaunaféð meðal annars til þess verkefnis“ segir Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélagsins og einn af umsjónarmönnum Stjörnufræðivefsins.

Á sama tíma hefur Stjörnufræðivefurinn útbúið námsefni um Galíleósjónaukann (til1118) sem nú er aðgengilegt á vefnum. Markmiðið er að nemendur jafnt sem kennarar fari út þegar dimmt er orðið til þess að virða fyrir sér stjörnuhimininn og þá leyndardóma sem hann hefur að geyma, bæði með og án sjónauka.

„Við eigum yfir 2000 kort afgangs sem dreift verður á viðburðum á meðan birgðir endast, svo sem í sólskoðun í miðbæ Reykjavíkur á 17. júní eða á Menningarnótt, á Vísindavöku Rannís og öðrum opinberum viðburðum. Þátttakendur á stjörnufræðinámskeiðum og gestir á félagsfundum Stjörnuskoðunarfélagsins munu einnig geta fengið kort“ segir Sverrir að lokum.

Skýringar

[1] Leiðbeiningar um notkun kortsins má finna hér.

Frekari upplýsingar

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness er elsta og stærsta félag áhugamanna um stjörnufræði og stjörnuskoðun á Íslandi. Félagið var stofnað þann 11. mars árið 1976 í kringum stærsta stjörnusjónauka landsins sem er á þaki Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Í dag eru félagsmenn rúmlega 300. Félagið er öllum opið og eru félagsfundir haldnir mánaðarlega yfir vetrartímann. Undanfarin ár hefur félagsgjaldið verið 2.500 krónur á ári. Ár hvert stendur félagið fyrir margvíslegum uppákomum og ber þar helst að nefna námskeið í stjörnuskoðun, útgáfu fréttabréfa, sólskoðun og stjörnuskoðun fyrir almenning og þátttöku í Vísindavöku Rannís auk annarra atburða. Heimasíða félagsins er www.astro.is.

Stjörnfræðivefurinn (www.stjornufraedi.is) er alfræðivefur um stjörnufræði og stjörnuskoðun. Vefnum er ætlað að efla áhuga og auðvelda aðgengi almennings að vönduðu efni um stjarnvísindi. Á vefnum eru mikill fjöldi greina um allt frá sjónaukum og reikistjörnum til svarthola og vangaveltna um líf í alheimi. Í viku hverri birtast á vefnum fréttir af nýjustu niðurstöðum rannsókna í stjarnvísindum. Mynd vikunnar er á sínum stað og í hverjum mánuði er gefið út Stjörnukort mánaðarins.

Árið 2011 var Stjörnuskoðunarfélaginu og Stjörnufræðivefnum veittar tvær viðurkenningar fyrir framúrskarandi vísindamiðlun frá Rannís annars vegar og Siðmennt hins vegar.

Tenglar

Tengiliðir

Sverrir Guðmundsson
Ritari Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness
E-mail: [email protected]

Sævar Helgi Bragason
Formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness
Sími: 896-1984
E-mail: [email protected]

Þetta er fréttatilkynning Stjörnufræðivefsins stj1113

Tengdar myndir

  • stjörnukort, stjörnuskífa, gjöf til 10 ára nemendaOttó Elíasson afhendir nemendum í Mýrarhúsaskóla stjörnukort. Mynd: Sverrir Guðmundsson
  • stjörnukort, stjörnuskífa, gjöf til 10 ára nemendaStjörnuhiminn að hausti.
  • stjörnukort, stjörnuskífa, gjöf til 10 ára nemendaStjörnuhiminn að vori.
  • stjörnukort, stjörnuskífa, gjöf til 10 ára nemendaNemendur í Mýrarhúsaskóla fá stjörnukort afhent. Mynd: Sverrir Guðmundsson