Vangasvipur stjörnumyndunarsvæðis

Sævar Helgi Bragason 01. feb. 2012 Fréttir

Á nýrri mynd ESO sést hvernig heitar ungar stjörnur hafa sorfið holrúm í gasi og ryki stjörnumyndunarsvæðisins NGC 3324.

  • NGC 3342, Kjalarþokan

Hér sést ný mynd stjörnumyndunarsvæðinu NGC 3324. Hún var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Litadýrðin verður til þegar ungar og heitar stjörnur í NGC 3324 gefa frá sér sterka útfjólubláa geislun sem fær gas- og rykskýið til að glóa en heggur um leið út holrúm í því.

NGC 3342 er í um 7.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Kilinum (nefnt eftir kili fleysins Argó sem Jason sigldi í einni grískri goðsögn). Þokan er í norðurjaðri Kjalarþokunnar sem mótast hefur af fjölmörgum öðrum og afmörkuðum stjörnumyndunarsvæðum (eso0905). Fyrir nokkrum milljónum ára leddi mikið magn gass og ryks í NGC 3324 til hrinu stjörnumyndunar en þá urðu til nokkrar af þeim þungu og heitu stjörnum sem eru áberandi á þessari mynd.

Frá þessum ungum stjörnum stafa miklir vindar og sterk geislun sem myndað hafa holrúm í gasinu og rykinu í kring. Það sést best í miklum efnisvegg, hægra megin við miðja mynd. Útfjólubláa geislunin frá heitu, ungu stjörnunum rífur rafeindir af vetnisatómum sem taka þær síðan aftur til sín. Þegar rafeindirnar flæða í gegnum mismunandi orkustig myndast djúprauði bjarminn sem einkennir þokuna og sýnir umfang dreifða gassins. Aðra liti má rekja til annarra frumefna, til dæmis sést grænguli einkennislitur tvíjónaðs súrefnis vel við miðja þoku.

Þeir sem skoða þokuna í sjónauka og á myndum sjá ýmis mynstur rétt eins og fólk sem starir upp í skýin á jörðinni. Eitt gælunafn NGC 3324 er Gabriela Mistral þokan eftir sílesku nóbelsverðlaunaskáldkonunni [1]. Sjá má sterkan vangasvip í gas- og rykveggnum hægra megin þar sem „nabbinn“ sem skagar út í miðjunni er nefið.

Á mynd Wide Field Imager myndavélarinnar á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukans í La Silla stjörnustöðinni sjást líka fjölmörg dökk svæði í NGC 3342. Á þessum stöðum dregur ryk úr birtu glóandi gass í bakgrunni. Úr verða skuggamyndir sem minna um margt á víravirki og færa þessu fallega svæði aukna dýpt.

Hubble geimsjónaukinn hefur líka beint sjónum sínum að NGC 3342 í fortíðinni. Á mynd Hubbles sjást fínni smáatriði en á víðmynd Wide Field Imager en um leið miklu smærra svæði. Saman gefa sjónaukarnir okkur þysjanlega mynd af stjörnumyndunarsvæðinu.

Skýringar

[1] Frekari útskýring og samanburðarmynd er á vefsíðu stjörnuáhugamannsins Daniels Verschatse:http://www.verschatse.cl/nebulae/ngc3324/medium.htm.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: [email protected]

Richard Hook
ESO, La Silla, Paranal, E-ELT and Survey Telescopes Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Tel: +49 89 3200 6655
Cell: +49 151 1537 3591
Email: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1207.

Tengdar myndir

  • NGC 3324Mynd Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöðinni af stjörnumyndunarsvæðinu NGC 3324. Sterk útfjólublá geislun frá nokkrum af massamestu bláhvítu stjörnum NGC 3324 hefur sorfið holrúm í gasinu og rykinu. Litadýrðina má líkja rekja til stjarnanna sem lýsa upp gasið. Mynd: ESO

Krakkavæn útgáfa