Stórglæsileg „ný“ mynd af Rauða blettinum á Júpíter

Sævar Helgi Bragason 28. mar. 2012 Fréttir

Björn Jónsson hefur útbúið „nýja“ og stórglæsilega mynd af Rauða blettinum á Júpíter

  • Rauði bletturinn, Júpíter

Stjörnuáhuga- og geimlistamaðurinn Björn Jónsson hefur útbúið nýja mynd af Stóra rauða blettinum fræga á Júpíter sem er án efa sú besta sem gerð hefur verið af honum hingað til.

Árið 2010 birti Stjörnufræðivefurinn glæsilegar myndir Björns Jónssonar af rauða blettinum á Júpíter (stj1010). Björn hefur nú bætt um betur og útbúið nýja og stórglæsilega útgáfu af annarri mynd sem tekin var úr örlítið meiri fjarlægð. Þessi útgáfa hefur verið unnin til að auka skerpu og birtuskil:

Rauði bletturinn, Júpíter
Stóri rauði bletturinn á Júpíter í skerptri útgáfu (sjá mestu upplausn) Mynd: NASA/JPL/Björn Jónsson

Áhugavert er að bera myndina saman við aðra sem er í um það bil réttum litum og réttum birtuskilum:

Rauði bletturinn, Júpíter
Stóri rauði bletturinn á Júpíter í um það bil réttum litum og réttum birtuskilum (sjá í mestu upplausn). Mynd: NASA/JPL/Björn Jónsson

Myndirnar tók Voyager 2 úr um 2,7 milljón km fjarlægð frá Júpíter sumarið 1979. Þessi mynd er samsett úr 6 litmyndum sem hver um sig er sett saman úr þremur myndum sem teknar voru í appelsínugulu, grænu og fjólubláu ljósi. Alls voru því notaðar 18 myndir. Um er að ræða sömu frumgögn og á bak við þessa mynd:

Rauði bletturinn, Júpíter
Upprunaleg útgáfa NASA/JPL af myndinni af Stóra rauða blettinum á Júpíter. Mynd: NASA/JPL

„Þetta er vel þekkt mynd, m.ö.o. myndin sem var á ljósmyndasýningunni From the Earth to the Universe á Skólavörðuholtinu á ári stjörnufræðinnar 2009. Nýja útgáfan er hinsvegar óneitanlega „örlítið“ betri“ segir Björn.

Áhugavert er að skoða myndina að ofan í stærra samhengi. Hér undir er víðmynd sem Voyager 2 tók á sama tíma og nærmyndirnar.

Rauði bletturinn, Júpíter
Víðmynd sem Voyager 2 tók af Júpíter á sama tíma og nærmyndirnar voru teknar. Búið er að skerpa smáatriði lítillega en að öðru leyti eru litir og birtuskil nærri lagi. Mynd: NASA/JPL/Björn Jónsson

Af reikistjörnum sólkerfisins hefur Júpíter lang litríkasta lofthjúpinn. Þrátt fyrir að heilmikil gögn frá gervitunglum liggi fyrir er ekki enn ljóst hvað veldur litbrigðum skýjanna. Kristallar ammóníaks og ammóníaks-vetnissúlfíðs eru hvítir á litinn og hljóta þar af leiðandi að vera ljósleitu skýin. Önnur efni, til dæmis fosfór, brennisteinn og hugsanlega vetniskolefni, skipta sennilega litum þegar útfjólublátt ljós frá sólinni skín á þau og valda þannig brúnu, rauðu og appelsínugulu litbrigðunum.

Við óskum Birni til hamingju með þessar glæsilegu myndir og bíðum spennt eftir næstu listaverkum frá honum.

Þetta er fréttatilkynning frá Stjörnufræðivefnum stj1204