Horft inn í ryk í belti Óríons

Sævar Helgi Bragason 02. maí 2012 Fréttir

Á nýrri mynd af geimþokunni M78 sjást ský úr geimryki sem þræða sig í gegnum þokuna líkt og perlufesti.

  • Messier 78, APEX

Á nýrri mynd af svæðinu í kringum endurskinsþokuna Messier 78, sem er skammt norður af Sverðþokunni í Óríon, sjást ský úr geimryki sem þræða sig í gegnum þokuna líkt og perlufesti. Mælingarnar voru gerðar með Atacama Pathfinder Experiment (APEX) sjónaukanum [1] en þær sýna varmageislun rykagnanna og hjálpa stjörnufræðingum að sjá hvar nýjar stjörnur eru að myndast.

Ryk gæti hljómað heldur óspennandi og leiðinlegt — óhreinindi sem fela fegurð fyrirbæris. Þessi nýja mynd af Messier 78 og nágrenni, sem sýnir hálfsmillímetrageislun frá ryki í geimnum, sýnir hins vegar að ryk getur þvert á móti verið mjög heillandi. Ryk er stjörnufræðingum mjög mikilvægt því þétt ský úr gasi og ryki eru fæðingarstaðir nýrra stjarna.

Á miðri mynd sést Messier 78 sem einnig er þekkt sem NGC 2068. Í sýnilegu ljósi sést að hún er endurskinsþoka sem þýðir að rykið í henni endurvarpar ljósi skærra stjarna í kring svo hún fær á sig fölbláan blæ. Mælingar APEX sjónaukans eru appelsíngular og hafa verið lagðar ofan á mynd í sýnilegu ljósi. APEX mælir lengri bylgjulengdir svo hann greinir daufan bjarma frá þéttum og köldum rykkekkjum sem sumir eru meira en -250°C kaldir. Í sýnilegu ljósi er þetta ryk dimmt og skyggir á og er þá einmitt komin ástæða þess að sjónaukar á borð við APEX eru mikilvægir til að rannsaka ryksýin sem stjörnurnar verða til í.

Ein rykslæða sem APEX sér er mjög dimm í sýnilegu ljósi og klýfur Messier 78 i tvennt. Þessi þétta rykslæða er fyrir framan endurskinsþokuna og hleypir bláa ljósinu ekki í gegn. Annað áberandi glóandi ryksvæði sem APEX sér liggur að hluta yfir sýnilega ljósinu frá neðri brún Messier 78. Samsvarandi rykslæða sést ekki í sýnilegu ljósi svo við getum dregið þá ályktun að hún sé fyrir aftan endurskinsþokuna.

Mælingar á gasinu í skýjunum sýna að það streymir út úr sumum kekkjunum með ógnarhraða. Gasið streymir út frá ungum stjörnum á meðan þær eru enn að myndast úr skýinu í kring. Þetta er sönnun fyrir því að kekkirnir eru virkir myndunarstaðir stjarna.

Efst á myndinni er önnur endurskinsþoka, NGC 2071. Neðri svæðin á myndinni geyma aðeins ungar lágmassastjörnur en NGC 2071 inniheldur unga og massameiri stjörnu sem er talin fimm sinnum massameiri en sólin og að finna í bjartasta svæðinu í mælingum APEX.

Þau Thomas Stanke (ESO), Tom Megeath (Toledoháskóla í Bandaríkjunum og Amy Stutz (Max Planck stofnunni í stjörnufræði í Heidelberg í Þýskalandi) gerðu mælingarnar með APEX sem notaðar voru í þessa mynd. Frekari upplýsingar um svæðið í sýnilegu ljósi, þar á meðal upplýsingar um nýuppgötvaða — og mjög breytilega — þoku sem nefnd er þoka McNeils, er að finna í eso1105.

Skýringar

APEX er samstarfsverkefni Stofnunar Max Planck í útvarpsstjörnufræði (MPIfR) Onsala Space Observatory (OSO) og ESO, sem sér jafnframt um rekstur sjónaukans. APEX er undanfari Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), næstu kynslóðar hálfsmillímetrasjónauka, sem er í byggingu og að störfum á sömu hásléttu.

Frekari upplýsingar

Árið 2012 fagnar European Southern Observatory (ESO), stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, fimmtíu ára afmæli sínu. ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 15 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands. Með því að reisa og reka öflugustu stjörnuathugunarstöðvar heims leggur ESO grunninn að mikilvægum uppgötvunum stjörnufræðinga. Í Chile rekur ESO þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er þátttakandi í ALMA, byltingarkenndum útvarpssjónauka og stærsta stjarnvísindaverkefni heims. ESO hyggur einnig á smíði 40 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Thomas Stanke
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6116
Tölvupóstur: [email protected]

Douglas Pierce-Price
ESO ALMA/APEX Public Information Officer
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6759
Tölvupóstur: [email protected]

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1219.

Tengdar myndir

  • Messier 78, APEXÞessi mynd af svæðinu í kringum endurskinsþokuna Messier 78, sem er skammt norður af Sverðþokunni í Óríon, sýnir ský úr geimryki sem þræða sig í gegnum þokuna líkt og perlufesti. Hálfsmillímetramælingarnar voru gerðar með Atacama Pathfinder Experiment (APEX) sjónaukanum og sýna varmageislun rykagnanna og hjálpa stjörnufræðingum að sjá hvar nýjar stjörnur eru að myndast. Mælingar APEX eru appelsíngular og hafa verið lagðar ofan á mynd af svæðinu í sýnilegu ljósi. Mynd: ESO/APEX (MPIfR/ESO/OSO)/T. Stanke et al./Igor Chekalin/Digitized Sky Survey 2

Krakkavæn útgáfa