Sjaldséðar leifar sprengistjörnu frá árinu 185

Sævar Helgi Bragason 04. mar. 2023 Fréttir

RCW 86 er leifar hvíts dvergs sem sprakk árið 185 og kínverskir stjörnufræðingar skrásettu

  • RCW 86 sprengistjörnuleifin

Sundurtættar leifar stjörnu sem sprakk árið 185 sjást vel á þessari nýju mynd sem tekin var með Dark Energy myndavélinni á 4 metra sjónauka NOIRLab í Chile. Leifarnar kallast RCW 86 og urðu til þegar hvítur dvergur sprakk í tætlur.

Árið 185 skrásettu kínverskir stjörnufræðingar sprengistjörnu á himni. Stjarnan birtist upp úr þurru og var sýnileg berum augum í um átta mánuði.

Stjarnan sem sprakk var 8000 ljósár í burtu frá Jörðinni, milli stjörnumerkjanna Hringfarans og Mannfáksins á suðurhveli himins. Sprengistjörnuleifin fannst seinna meir og hlaut þá skráarheitið RCW86.

Myndin var tekin með Dark Energy Camera (DECam) á hinum 4 metra breiða Victor M. Blanco sjónauka á Cerro Tololo í Chile. DECam hefur sérstaklega vítt sjónsvið sem hjálpar okkur að sjá allar leifarnar í einu og varpa ljósi á hvernig þær hafa þróast undanfarin 1800 ár.

Leifarnar hafa dreifst yfir ótrúlega stórt svæði á stuttum tíma. Svæðið er raunar svo stórt að stjörnufræðingar töldu fyrst að leifarnar hlytu að vera frá annarri mun eldri sprengistjörnu.

Þegar útþensluhraðinn og efnasamsetning leifanna voru mældar og sýndu talsvert magn af járni, kom í ljós að sprengingin var af völdum sprengistjörnu af gerð Ia.

Sprengistjörnur af gerð Ia verða þegar hvítur dvergur í tvístirnakerfi dregur til sín efni frá fylgistjörnu. Efnið safnast saman á yfirborð hvíta dvergsins uns Chandrasekhar-mörkum er náð. Þá springur hvíti dvergurinn í tætlur.

Áður en hvíti dvergurinn sprakk blésu kröftugir vindar frá honum sem þrýstu gasi og ryki út á við. Geimurinn í kring „hreinsaðist“, ef svo má segja, og til varð þessi kúlulaga eyða sem við sjáum á myndinni.

Þegar stjarnan loks sprakk var því lítið um efni fyrir til að hægja á leifunum. Gátu þær þá þotið svo til óhindruð út í geiminn á ógnarhraða.

Upprunaleg frétt

Mynd: CTIO/NOIRLab/DOE/NSF/AURA - T.A. Rector (University of Alaska Anchorage/NSF's NOIRLab), J. Miller (Gemini Observatory/NSF's NOIRLab), M. Zamani & D. de Martin (NSF's NOIRLab)