Sólmyrkvi sjáanlegur frá Íslandi 11. ágúst 2018

Deildarmyrkvi sést laugardagsmorguninn 11. ágúst 2018

Sævar Helgi Bragason 05. ágú. 2018 Fréttir

Myrkvinn sést frá öllu landinu ef vel viðrar en nota þarf viðeigandi hlífðarbúnað til að sjá hann, sólmyrkvagleraugu og/eða sjónauka með sólarsíu.

  • Deildarmyrkvi 21. ágúst 2017. Mynd: Sævar Helgi Bragason

Deildarmyrkvi á sólu verður sjáanlegur frá Íslandi laugardagsmorguninn 11. ágúst 2018. 

Myrkvinn sést frá öllu landinu ef vel viðrar. Deildarmyrkvinn er mestur norðvestanlands þar sem tunglið hylur um 14% sólar (14,5% á Hornströndum).

Sólmyrkvagleraugu eru ein öruggasta leiðin til að fylgjast með sólmyrkvumNauðsynlegt er að nota viðeigandi hlífðarbúnað til að sjá deildarmyrkvann, það er sólmyrkvagleraugu og/eða sjónauka með sólarsíu. Venjuleg sólgleraugu duga ekki.

  • Á höfuðborgarsvæðinu snertir tunglið sólina kl. 08:10. Þar nær myrkvinn hámarki kl. 08:44 og hylur tunglið þá rétt rúmlega 10% af sólinni. Myrkvanum lýkur svo kl. 09:19. 
  • Á Ísafirði hefst myrkvinn kl. 08:10 og er í hámarki kl. 08:47 þegar tunglið hylur 14% sólar. Þar lýkur myrkvanum kl. 09:25.
  • Á Akureyri hefst myrkinn kl. 08:11 og nær hámarki kl. 08:48 þegar tunglið hylur 12% sólar. Þar lýkur myrkvanum kl. 09:25.
  • Á Egilsstöðum hefst myrkvinn kl. 08:13 og nær hámarki kl. 08:49 þegar tunglið hylur tæplega 11% sólar. Þar lýkur myrkvanum kl. 09:26.
  • Í Vestmannaeyjum hefst myrkvinn kl. 08:11 og nær hámarki kl. 08:44. Þá hylur tunglið tæplega 9% af sólinni. Myrkvanum þar lýkur kl. 09:17.

Seinast sást deildarmyrkvi frá Íslandi 21. ágúst 2017. Þá huldi tunglið huldi um og yfir 2% sólar frá Íslandi séð en á sama tíma sást almyrkvi frá Bandaríkjunum. Deildarmyrkvinn nú er sá mesti síðan 20. mars 2015 en sá myrkvi var mun meiri en nú eins og margir muna .

Deildarmyrkvinn nú sést best rétt sunnan og norðan heimskautsbaugs: Frá norðaustur Kanada, Grænlandi, Íslandi, norður Evrópu og norðausturhluta Asíu. Hvergi sést almyrkvi að þessu sinni.

Tunglið er næst jörðu innan við sólarhring áður en myrkvinn á sér stað. Þegar myrkvinn stendur yfir verður sólin í stjörnumerkinu Ljóninu .

Næst verður sólmyrkvi sjáanlegur frá Íslandi 10. júní 2021. Sá verður einnig deildarmyrkvi en mun meiri en nú. Þá hylur tunglið 70% sólar frá Reykjavík séð.

Hinn 12. ágúst 2026 verður svo almyrkvi á sólu sjáanlegur frá Íslandi, sá fyrsti síðan 1954.

851x315_Saevar