Webb sér Krabbaþokuna í nýju ljósi

Sævar Helgi Bragason 30. okt. 2023 Fréttir

Ný mynd frá Webb sjónaukanum sýnir ný smáatriði í sprengistjörnuleifinni Messier 1

  • Weic2326a-webb-krabbathokan-messier1

Stjörnufræðingar hafa birt nýja mynd sem James Webb geimsjónaukinn af Krabbaþokunni, Messier 1, í stjörnumerkinu Nautinu. Á myndinni sést fjöldi áður óséðra myndanna í þokunni. 

Hamfarir - Vísindalæsi

Krabbaþokan er ein mest rannsakaða sprengistjörnuleifin. Þrátt fyrir það er mörgum spurningum enn ósvarað um sprengistjörnuna sem birtist á himni sumarið 1054. Stjarnan sem sprakk var blá ofurrisastjarna, líklega um átta sinnum efnismeiri en sólin, í 6500 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Nautinu .

Á nýju myndinni frá Webb sést í fyrsta sinn glóandi ryk úr miðju þokunnar (gulhvítt og grænt). Auk þess sjást ýmsar myndanir í þokunni í meiri smáatriðum en áður. Það á sér í lagi við um útgeislun frá hlöðnum eindum, eins og rafeindum, sem hreyfast um segulsviðslínur á því sem næst ljóshraða. Sú geislun kallast samhraðalsgeislun (e. synchrotron emission) og birtist eins og mjólkurhvítur reykjarmökkur í þokunni.

Weic2326a-webb-krabbathokan-messier1

Þessi myndun stafar af tifstjörnunni í miðjunni. Sterkt segulsvið hennar kemur rafeindum á gríðarlegan hraða svo þær gefa frá sér geislun þegar þær hverfast um segulsviðið. Tifstjarnan sjálf í miðjunni snýst á ógnarhraða og veldur því að gárur myndast í rykinu næst henni. Vindar henni þrýsta gasi og ryki út á við sem skellur á annað efni svo þræðir verða til. 

Innan tíðar munu stjörnufræðingar getað borið gögnin frá Webb saman við ný gögn frá Hubble geimsjónaukanum af Krabbaþokunni. Það verður í fyrsta sinn í tuttugu ár sem Hubble beinir sjónum sínum að þokunni.

Weic2326c-webb-hubble-krabbathokan-messier1

Samanburður á ljósmyndum Hubble geimsjónaukans í sýnilegu ljósi (vinstri) og James Webb geimsjónaukans í innrauðu ljósi (hægri) af Krabbaþokunni í Nautinu.

Frétt frá ESA

Mynd: NASA, ESA, CSA, STScI, T. Temim (Princeton University)